Svigrúm til lækkunar matvælaverðs?

 Innfluttar matar- og drykkjarvörur hækkuðu um 52% frá mars 2008 til febrúar 2009 á með innlendar matar- og drykkjarvörur, án búvara, hækkuðu um 23%. Frá árinu 2009 hefur þessi þróun snúist við og innlendar matvörur, bæði búvörur og aðrar vörur, hækkað nokkuð umfram innfluttar vörur.

Frá síðustu áramótum hefur krónan styrkts um 7% en á sama tíma hafa bæði innlend og innflutt matvæli hækkað í verði. Frá áramótum hafa búvörur án grænmetis hækkað um 3% og aðrar innlendar matar- og drykkjavörur um 2% þrátt fyrir að ætla mætti að framleiðslukostnaður hafi lækkað vegna styrkingar krónunnar.

Spurningin nú hlýtur að vera hvort ekki sé verulegt svigrúm til lækkunar á matar- og drykkjarvörum þegar horft er til þess að erlendir greiningaraðilar spá áframhaldandi verðlækkun á korni á næstu 12 mánuðum en verðlækkun á korni hefur margfeldisáhrif á allt matvælaverð. Einnig ætti að vera svigrúm til lækkunar ef horft er til markmiða Seðlabankans um stöðugt gengi krónunnar.

Hér er um mikilvægt hagsmunamál íslenskra heimila að ræða sem nauðsynlegt er að fylgja eftir því fátt rífur eins grimmt í budduna og matvælaverð. Hvernig markaðurinn bregst við þessari þróun getur einnig haft veruleg áhrif á hverjar lyktirnar verða í komandi kjarasamningsviðræðum.