Húsnæðisverð hefur hækkað um 0,4% milli júlí og ágúst samkvæmt gögnum frá Hagstofunni sé horft til alls landsins. Á síðustu 12 mánuðum hefur húsnæðisverð hækkað um 6,5% að nafnvirði og að raunvirði um 2,4% síðustu 12 mánuði. Húsnæðisverð hefur hækkað um 22,2% frá því það var sem lægst að nafnverði en 9,8% að raunvirði. Raunvirði húsnæðis er hinsvegar enn 28% lægra en það var þegar það stóð sem hæst í aðdraganda hrunsins. Samkvæmt upplýsingum úr nýjasta hefti Peningamála er raunvirði húsnæðis svipað og það var árið 2004.
Það er athyglisvert að skoða þróun húsnæðisverðs í samanburði við kaupmátt launa. Kaupmáttur launa hefur aukist um 1,6% síðustu 12 mánuði og frá því hann var sem lægstur nemur hækkunin 9,5% sem er svipuð breyting og á húsnæði. Skuldabyrðin hefur hins vega lést samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar og lækkaði hlutfall þeirra sem telja að húsnæðiskostnaður sé þung byrði úr 31,7% í 27,6% milli áranna 2011 og 2012.
Ef skuldir heimilanna eru skoðaðar sem hlutfall landsframleiðslu fór hlutfallið í 134% árið 2009 en var komið niður í 109% í lok síðasta árs.