Laun á vinnumarkaði hafa hækkað um 74% en kaupmátturinn um 2,8%

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafa laun hækkað um 74% að meðaltali á tímabilinu 2005-2013.  Nokkur munur er á almennum vinnumarkaði og þeim opinbera en breytingin er 76,8% á almenna vinnumarkaðnum en 69,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 68,3% hjá starfsfólki sveitarfélaga.

Launabreytingarnar má að stærstum hluta rekja til umsaminna launabreytinga í kjarasamningum sem gerðir hafa verið á tímabilinu. Einnig þarf að horfa til þess að atvinnulífið og stéttarfélög innan ASÍ hafa samið um sérstakar hækkanir á lægstu launataxta og hækkuðu þeir frá fyrsta árfjórðungi 2005 til sama tíma 2013 um 106,3%.

Það sem vekur þó mesta athygli er þróun kaupmáttar fyrir sama tímabil þ.e. 2005-2013 en kaupmáttur reglulegra launa hefur aukist um 2,8% að meðaltali fyrir þetta tímabil, 4,1% á almennum vinnumarkaði en dregist saman um 0,3% hjá ríkisstarfsmönnum og 0,9% starfsmönnum sveitarfélaga.

Þessar upplýsingar um þróun launa og breytingar á kaupmætti hljóta að kalla á breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.  Mikilvægt er að skapa samstöðu um að í framtíðinni verði samningsgerðinni háttað með þeim hætti að launhækkanir skili sér til launamanna í formi hækkandi kaupmáttar en ekki sem fóður í verðlagshækkanir.  Markmiðið hlýtur að vera að semja um lítið fyrir meira þ.e minni launahækkanir en meiri kaupmátt.