Fyrsti viðræðufundurinn – kröfugerðin lögð fram

Á fyrsta formlega viðræðufundinum milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins vegna endurnýjunar kjarasamninganna og haldinn var í húsnæði SA 15.október lagði viðræðunefnd Samiðnar fram eftirfarandi kröfugerð fyrir hönd aðildarfélaga:

Samningstími
– Gera skammtímasamning til 6 – 12 mánaða.
– Skammtímasamningurinn verði aðfararsamningur að samningi til lengri tíma og verði nýttur til að undirbyggja kjarasamninga sem tryggi stöðugleika og vaxandi kaupmátt launa.
– Samhliða samningum verði gert samkomulag um vinnulag við gerð langtímasamningsins þar sem allir aðilar þ.e. ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins skuldbinda sig til þátttöku.
– Í samkomulaginu verði skýrt kveðið á um hlutverk og markmið samstarfsins ásamt tímasetningum.
– Í ferlinu og við gerð langtímasamnings verði tryggt að einstakir hópar geti fengið viðræður og úrlausn sinna sérmála.
– Forsenda skammtímasamnings er að fyrirliggi yfirlýsingar ríkis, sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins um að þessir aðilar muni beita sér fyrir því að um samdar launahækkanir fari ekki út í verðlagið.  Með sama hætti skuldbindi ríki og sveitarfélög sig að hækka ekki þjónustugjöld og álögur á samningstímanum.

Lúkning þeirra mála sem samið var um árið 2011 og ekki eru komin til framkvæmda
– Koma yfirlýsingu um jöfnun lífeyrisréttinda til framkvæmda.
– Ganga frá samkomulagi um ábyrgð aðalverktaka á kjarasamningsbundnum réttindum starfsmanna undirverktaka.
– Ljúka við gerða kjarasamnings fyrir snyrtifræðinga.
– Gengið verði frá samkomulagi um meðferð á 0,10% endurmenntunargjaldi.

Almenn atriði:
– Tryggt verði með samkomulagi við stjórnvöld að nú þegar verði gripið til aðgerða til lausnar á þeim mikla vanda sem er í húsnæðismálum og verðtryggingu lána almennings.