Þessar vikurnar eru sveitarfélögin að undirbúa fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár og ákveða verðlagningu á þjónustu sem íbúarnir þurfa að greiða fyrir. Nú í vikunni voru kynnt drög að fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg og samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið í fjölmiðlum eru fyrirhugaðar hækkanir langt umfram þau viðmið sem Samiðn hefur lagt til grundvallar við gerð kjarasamninga. Samiðn hefur í sinni kröfugerð lagt ríka áherslu á lækkun verðbólgu og aukningu kaupmáttar og þar með stöðugleika í efnahagslífinu. Slíkt næst ekki fram nema allir spili með og gegnir stærsta sveitarfélag landsins þar mikilvægu hlutverki og getur ekki skorist úr leik og sett fram fjárhagsáætlun sem gengur gegn þeim markmiðum sem stefnt er að af aðilum vinnumarkaðarins.
Í þeim áherslupunktum sem Samiðn hefur kynnt Samtökum atvinnulífsins er lögð þung áhersla á að fyrirtæki, ríki og sveitarfélög gæti mikils aðhalds þegar kemur að verðhækkunum á þjónustu og þeim verði ekki hleypt út í verðlagið. Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að krafan til fyrirtækjanna sé að væntanlegar launahækkanir verði ekki að verðbólgufóðri. Verði niðurstaðan hins vegar sú að ríki og sveitarfélög telji sig ekki bundin og geta hagað sér eins og þeim sýnist erum við föst í gamla verðbólgufarinu og ekkert breytist.
Þó má vera að fram komnar fyrirætlanir Reykjavíkurborgar skapi tækifæri til endurskoðunar á fyrirhuguðum hækkunum í þá veru að þær verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans þ.e. 2,5%. En það væri stór áfangi ef samkomulag næðist við ríki og sveitarfélög um slíkt og þau skuldbindu sig til að hækka ekki þjónustugjöld umfram 2,5% á næsta ári. Með sama hætti skuldbindu fyrirtækin sig að hleypa ekki væntanlegum launahækkunum út í verðlagið.
Gangi þetta eftir myndu þær aðstæður skapast að tiltölulega litlar launahækkanir gætu skilað launafólki auknum kaupmætti og bættum lífskjörum. Verðbólgan færi lækkandi og höfuðstóll lána sömuleiðis í fyrsta sinn í mörg ár. Mörg sveitarfélög eru mjög skuldsett og stærstur hluti lánanna er verðtryggður og því augljóst að ávinningur þeirra af lágri verðbólgu er mikill þegar horft er til lengri tíma.
Skoðanakannanir sýna að Reykjavíkingar eru mjög sáttir við stjórn borgarinnar sem sýnt hefur ábyrgð og kjark þegar þurft hefur að takast á við erfið verkefni. Fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun eru alvarlegt stílbrot á þessari ábyrgð sem er óásættanlegt og skorar Samiðn á borgarstjórn Reykjavíkur að sýna kjark og endurskoða fyrirætlanir sínar um hækkanir þjónustugjalda.