Veikindaréttur

Starfsmenn skulu á hverju 12 mánaða tímabili halda launum í veikinda- og slysaforföllum sem hér greinir

  • Fyrstu sex mánuðina hjá sama atvinnurekanda, tveir dagar á fullum launum fyrir hvern unninn mánuð.
  • Eftir sex mánaða samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum.
  • Eftir tveggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum og einn á dagvinnulaunum.
  • Eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum og tveir á dagvinnulaunum.

Starfsmaður sem öðlast hefur þriggja mánaða veikindarétt eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda og ræður sig innan 12 mánaða hjá öðrum atvinnurekanda heldur rétti til fullra launa í einn mánuð enda hafi starfslok hjá fyrri atvinnurekanda verið með eðlilegum hætti og rétturinn sannreyndur. Betri rétt öðlast starfsmaður eftir tveggja ára samfellt starf hjá nýjum atvinnurekanda.

Sérákvæði sveina í byggingagreinum og skrúðgarðyrkju

  • Fyrstu sex mánuðina í starfsgrein að afloknu sveinsprófi, tveir dagar á fullum launum fyrir hvern unninn mánuð.
  • Eftir sex mánaða samfellt starf í starfsgrein, einn mánuður á fullum launum.
  • Eftir eins árs samfellt starf í starfsgrein, einn mánuður á fullum launum og einn á dagvinnulaunum.
  • Eftir þriggja ára samfellt starf í starfsgrein, einn mánuður á fullum launum og tveir á dagvinnulaunum.

Aukinn réttur í ákvæðisvinnu

  • Eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda eiga starfsmenn í ákvæðisvinnu einn mánuð á fullum launum, einn á fullum dagvinnulaunum og einn á dagvinnulaunum.

Áunnin réttindi

Áunnin réttindi starfsmanns, sem hættir störfum í starfsgreininni, skal haldast verði um endurráðningu að ræða í sömu starfsgrein innan eins árs. Á sama hátt skulu áunnin réttindi taka gildi á ný eftir eins mánaðar starf ef endurráðning verður eftir meira en eitt ár en innan þriggja ára. Hætti maður störfum í starfsgrein í meira en þrjú ár falla áunnin réttindi niður.

Heildarréttur á 12 mánaða tímabili

Réttur til launa vegna veikinda- og slysaforfalla skv. gr. 8.1.1. og 8.1.2. er heildarréttur á 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar veikinda.

Sjá nánar bls. 42.