Síðustu daga hafa staðið yfir viðræður milli stéttarfélaga í Reykjavík og fulltrúa Reykjavíkurborgar um sameiginlega sýn á komandi kjarasamningsgerð. Á fundunum hafa stéttarfélögin gert grein fyrir þeim markmiðum sem unnið er út frá þ.e. stöðugu verðalagi, vaxandi kaupmætti og auknum hagvexti. Í þeim samræðum hafa aðilar orðið sammála um sameiginlega sýn og samstillt áherslur sínar varðandi forsendur komandi kjarasamninga. Því ber að fagna sérstaklega ákvörðun Reykjavíkurborgar að fyrirhugaðar gjaldskráhækkanir komi ekki til framkvæmda aðrar en þær sem eru afleiddar af lögum. Það er ljóst að þessi ákvörðum Reykjavíkurborgar er mótandi fyrir önnur sveitarfélög, ríkisstjórn og fyrirtækin í landinu og auðveldar vinnuna framundan. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa að önnur sveitarfélög og ríkið gefi hliðstæða yfirlýsingu og Samtök atvinnulífsins lýsi því jafnframt yfir að fyrirtæki innan þeirra raða muni ekki fleyta hækkunum út í verðlagið.
Það má öllum vera ljóst að ef það á að nást árangur verða allir að spila með, það getur engin skorast undan enda njóta allir ávinningsins þegar upp er staðið.