Þessa dagana eru stéttarfélögin innan ASÍ að ræða saman og samhæfa áherslur sínar gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver niðurstaðan verður eða hvort allir verða samferða þegar á reynir þó svo samlegðin sé augljós.
Á síðustu dögum hafa Samtök atvinnulífsins staðið fyrir auglýsingaherferð í fjölmiðlum landsins þar sem því er haldið fram að kauphækkanir síðustu ára hafi fyrst og fremst verið fóður fyrir verðbólguna. Vafalaust er hægt að færa rök fyrir því ef atvinnurekendur setja allar launahækkanir sem þeir semja um beint út í verðlagið. En þessi framsetning SA hlýtur á hinn veginn að vekja spurningar um ábyrgð þeirra á eigin gjörðum; er ekkert að marka þegar þeir skrifa undir kjarasamninga, er aldrei meiningin að standa við þá?
Þorsteinn Pálsson, fyrirverandi ráðherra og framkvæmdastjóri VSÍ, hefur velt því fyrir sér hvort hið breytta verklag SA í þá veru að nær eingöngu starfsmenn samtakanna komi að samningsgerðinni, dragi úr ábyrgð stærstu fyrirtækja landsins á gerð kjarasamninganna. Hér áður fyrr komu allir helstu framkvæmdastjórar og forystumenn atvinnulífsins með beinum hætti að samningsgerðinni, voru þátttakendur í að móta niðurstöðuna og fundu því til skýrrar ábyrgðar á henni.
Nú stendur yfir gerð kjarasamninga í anda þjóðarsáttar og því gott að rifja upp hvernig staðið var að þjóðarsáttinni í byrjun tíundar áratugarins. Mikil fundarhöld voru um allt land í aðdraganda samningsins og mikill fjöldi fólks kom að sjálfri samningsgerðinni bæði af hálfu launamanna og atvinnurekenda. Þannig var ábyrgðinni dreift á margar hendur og allir báru ábyrgð á að tryggja að markmiðinum yrði náð.
Nú er farið að þessu með öðrum hætti og málin unnin í mjög þröngum hópum og fáir dregnir til ábyrgðar.
SA hefur sett fram tillögu um 2% almenna launahækkun. Til að hægt sé að ræða slíka tillögu þarf að fylgja hverju þessi launahækkun á að skila í kaupmáttaraukningu.
Það er ekki fráleitt að ræða um 2% launahækkun í samningi til 12 mánaða ef hún skilar almennt 1,5 % kaupmáttaraukningu. Samiðn hefur sett fram þá hugmynd að gera einfaldan kjarasamning með skýrum kaupmáttarmarkmiðum sem atvinnulífið, ríkið og sveitarfélög bæru ábyrgð á. Þessir aðilar skuldbindi sig til að greiða bætur til launafólks verði markmiðinu ekki náð og eins ef orsakirnar eru vanefndir eða aðgerðir sem hindra það.
Samiðn er opin fyrir öllum hugmyndum sem styðja vaxandi kaupmátt, efnahagslegan stöðugleika og litla verðbólgu. Þær tillögur verða að vera raunsæjar og trúverðugar og settar fram í fullri ábyrgð og það þarf að liggja fyrir trygging að við þær verði staðið af hálfu ríkisins, sveitarfélaga og atvinnurekenda.
Nú liggur fyrir að flest stærstu sveitarfélög landsins munu rata í kjölfar Reykjavíkurborgar og bíða með hækkun á þjónustugjöldum. Þetta er mikið fagnaðarefni og styrkir vonina um að hægt sé að stoppa víxlverkanir verðlags sem hafa verið í gangi síðustu ár.
Þetta er hins vegar ekki nóg, nú verður ríkisstjórnin að stíga fram og fylgja fordæmi Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna. Einnig er mikilvægt að Samtök atvinnulífsins sýni í verki hvernig þau ætla að hemja fyrirtækin svo þau hleypi ekki öllum hækkunum beint út í verðlagið.
Þetta eru lykilatriði í komandi kjarasamningum og forsendan fyrir að hægt sé að tala um litlar kauphækkanir sem skili vaxandi kaupmætti. Nú er búið að tala nóg og komin tími til að koma orðunum í athafnir.