Kjarasamningurinn skilar auknum kaupmætti

Hilmar Harðarson formaður FIT og Samiðnar fjallar í nýútkomnu Fréttabréfi FIT  um áhrif kjarasamninganna á kjör launafólks og markmið samninganna til eflingar kaupmáttar.

„Nú er orðið ljóst að þær forsendur sem verkalýðshreyfingin lagði til grundvallar þegar kjarasamningur var undirritaður 21. desember síðastliðinn hafa haldið. Verðbólga mældist 2,1% um síðustu mánaðamót og er lægri en hún hefur verið síðustu þrjú ár og undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Eins og kunnugt er voru þessir kjarasamningar umdeildir innan verkalýðshreyfingarinnar. Þeir voru naumlega samþykktir af félagsmönnum FIT í janúar en felldir í nokkrum félögum. Öll þau félög sem felldu, utan eitt, hafa síðan samþykkt nýjan samning sem gerður var um miðjan febrúar. Viðbótin sem sá samningur innifól hefur verið færð inn í samninga þeirra félaga sem samþykktu fyrri samninginn.
Síðustu vikur hefur Fit síðan unnið að gerð kjarasamninga við Reykjavíkurborg, stofnanir borgarinnar, byggðasamlög og fleiri aðila sem eru með sérkjarasamninga. Einnig hefur félagið nú lokið við kjarasamning fyrir hönd félagsmanna sem starfa við Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Framundan eru á næstu vikum viðræður samninganefndar Samiðnar um gerð nýs kjarasamnings við ríkið.  Þær launahækkanir sem fengust með samningum í þessari lotu eru vissulega ekki miklar, 2,8%, eða 8.000 króna hækkun á mánuði að lágmarki. Það sem mestu skiptir er hins vegar að þessar krónutöluhækkanir skili sér í auknum kaupmætti en brenni ekki upp í verðbólgu vegna hækkana á vöru og þjónustu og gjaldskrám á opinberri þjónustu ríkis og sveitarfélaga.  Þetta er um leið staðfesting á því að samningarnir frá 21. desember síðastliðnum eru raunhæfir og munu skila launþegum þeirri kaupmáttaraukningu sem að var stefnt standi atvinnurekendur við þau loforð að sporna gegn hækkunum á vörum og þjónustu. Þetta eru auðvitað ánægjulegar fréttir , samningstímabilið fer vel af stað. Það er hins vegar of snemmt að fagna sigri. Það skiptir miklu máli hvernig spilað verður úr stöðunni það sem eftir er af samningstímanum og þar getur haft úrslita áhrif hvernig spilast úr samningsgerð milli kennara annarsvegar og ríkis og sveitarfélaga hinsvegar  Það þarf hinsvegar ekki að hafa mörg orð um það að staðan væri önnur og verri, verðbólgan miklu hærri, kaupmáttur lægri og allar horfur í atvinnulífi og í rekstrarumhverfi bæði heimila og fyrirtækja mun dekkri, ef lögð hefði verið áhersla á meiri krónutöluhækkanir í staðinn fyrir að leggja áherslu á kaupmáttaraukningu, stöðugt verðlag og lága verðbólgu. Verkalýðshreyfingin þarf áfram að halda atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið og gera það sem hægt er til þess að vinna gegn verðlags- og gjaldskrárhækkunum sem geta aukið verðbólgu og þannig gert kaupmáttaraukninguna að engu. Í því sambandi eru félagsmenn FIT sérstaklega hvattir til að fylgjast með og taka þátt í átakinu „veru á verði“ sem kynnt er hér annarstaðar í blaðinu.  Eins og kunnugt er var samningurinn frá því í desember svokallaður aðfararsamningur með eins árs gildistíma. Markmiðið er að fyrir lok þessa árs liggi fyrir nýr kjarasamningur þar sem hægt verður að byggja á þeim árangri sem vonast er til að samningurinn frá desember skili. Unnið verður samkvæmt samþykktri og tímasettri áætlun sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um. Stefnt er að því að hefja viðræður um gerð þess samnings nú í vor.“

Hilmar Harðarson,
formaður FIT