Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur ríkisstjórnina lítið koma til móts við þá gagnrýni sem Alþýðusambandið og m.a. Samiðn settu fram í haust á forgangsröðun stjórnvalda í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Sú stefna stjórnvalda sem fram kemur í annarri umræðu um frumvarpið gerir stöðuna enn erfiðari. Laun munu þurfa að hækka sérstaklega til að mæta auknum álögum s.s. á matvæli og heilbrigðisþjónustu. Þær launahækkanir koma til viðbótar nauðsynlegum launaleiðréttingum og þarf launafólk því að búa sig undir hörð átök á vinnumarkaði.