Besta jólagjöfin í ár – verðbólgan undir 1% !!!!!!

Þau tíðindi berast heimsbyggðinni að verðbólga á Íslandi sé komin undir 1% sem hlýtur að teljast til stórtíðinda og eitthvað sem við höfum ekki þekkt. Þetta er væntanlega besta jólagjöfin í ár og ekki spillir fyrir að nú er því spáð að verðbólgan muni haldast lítil næstu mánuði.
Þessi árangur staðfestir að það var rétt ákvörðun við gerð síðustu kjarasamninga að leggja áherslu á að ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi og leggja þannig grunn að batnandi afkomu almennings. Takist okkur að halda verðbólgunni niðri næstu misseri ætti það að skapa betri möguleika á að gera nýja kjarasamninga sem tryggja vaxandi kaupmátt.
En þessi árangur byggir líka á lækkandi verði á olíu sem veldur því að verðbólgan hækkar ekki meir en raun ber vitni og vinnur gegn öðrum innlendum hækkunum. Fréttir berast frá Rússlandi að þar sé þessu öfugt farið og lækkandi verð á olíu sé að valda djúpri efnahagslegri lægð og lífskjör almennings fari hratt versnandi.
Nú er mikilvægt að við nýtum þekkingu og reynslu til að varðveita þennan góða árangur og okkur takist að nýta hann fyrir alla en ekki eingöngu fyrir þá sem hafa lykilstöðu til að taka meira til sín en hægt er að réttlæta.  Ein af forsendum árangurs til lengri tíma er að almenningur finni að skipt sé jafn og á réttlátan hátt. Vaxandi ójöfnuður er ávísun á upplausn og vaxandi átök í samfélaginu.
Það er líka mikilvægt að horfa til þess að við höfum lifað 7 mögur ár og margur launamaðurinn hefur þurft að færa miklar fórnir sem birst hafa m.a. í atvinnuleysi, mun minni rástöfunartekjum en áður þekkist og margar fjölskyldur standa uppi mjög skuldsettar og eða eignalausar .
Nú er komið að því að skila til baka til þeirra sem færðu fórnirnar og það verður verkefni kjarasamninga á nýju ári. Í nýjum kjarasamningum er síðasta tækifæri á að móta nýja Ísland þar sem byggt verður jöfnum tækifærum allra en ekki eingöngu fárra útvalinna. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem mörg teikn eru á lofti um að það séu að verða til nýir útrásarvíkingar sem hiki ekki við að endurtaka leikinn og leggja þjóðina að veði á nýjan leik
Það er gott að fara inn í jólin og nýja árið með þá tilfinningu að það markmið sem við settum okkur við gerð síðustu kjarasamninga, þ.e. að koma á efnahagslegum stöðugleika og byggja grunn undir nýja sókn er að takast.