Misskipting gæðanna er mannanna verk

Í Viðtalinu, viðtalsþætti Boga Ágústssonar s.l. mánudag var rætt við Jason Beckfield prófessor í félagsfræði við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Beckfield hefur stundað rannsóknir á aukum ójöfnuði og skrifaði m.a. doktorsritgerð sína um ójöfnuð í evrópskum samfélögum.
Niðurstaða hans er að ójöfnuður fari vaxandi í Evrópu. Megin ástæðan sé annars vegar minnkandi áhrif stéttarfélaganna sem hafi verið drifkraftur í uppbyggingu velferðarkerfa og hins vegar minni tengsl þeirra við stjórnmálaflokka. Hann telur minnkandi áhrif stéttarfélaganna megi tengja því að skipulag þeirra hafi ekki fylgt þróun vinnumarkaðarins, skipulagið taki mið af vinnumarkaði þar sem frumframleiðslugreinarnar voru leiðandi en nú séu það aðrar greinar sem séu leiðandi og þar séu stéttarfélögin veik.
Hann bendir á að í Evrópu hafi áherslan verið á hagvöxt og velferðarkerfið eigi að taka mið af honum og koma á eftir en þetta hafi leitt til þess að minna fer til velferðarmála en áður og það leiði til vaxandi ójafnaðar. Hann tengir þetta fyrst og fremst pólitískum áherslum og því sé þessi þróun meðvituð en ekki eitthvert náttúrulögmál. Einnig bendir hann á að krafan um markaðslausnir í velferðarmálum ýti velferðarlausnum til hliðar og þær lendi í því að vera skilgreindar sem viðskiptahindranir á markaðinum.
Beckfield færir sterk rök fyrir því að það hafi orðið u-beygja á níunda áratugnum og síðan hafi hallað undan fæti, fólk sé að verða meðvitaðra um þessa þróun og það sé umræðan meðal almennings þó ekki sé auðvelt að átta sig á hvert hún muni leiða í framtíðinni.
Fleiri rannsóknir styðja niðurstöður Beckfield og benda til þess að auður þjóða sé að færast á færri hendur. Talið er að eitt prósent jarðarbúa muni eiga jafn mikið og hin 99% innan eins árs og að 80% jarðarbúa deili með sér 5,5% af auði veraldar.
Þessi niðurstaða Beckfield hlýtur að vera okkur Íslendingum umhugsunarefni og við hljótum að draga lærdóma af henni og takast á við þessa þróun því okkar örríki þolir ekki slíkt óréttlæti. Það er einnig mikilvægt fyrir stéttarfélögin að huga að því hvort skipulag þeirra takmarki möguleika þeirra til að ná árangri og hafa áhrif í samfélaginu.
En aðalatriðið er að íslensk stéttarfélög geta ekki sætt sig við að örfáir hrifsi til sín stærstan hluta þeirra verðmæta sem verða til í samfélaginu. Samfélag þar sem velferð fjöldans er höfð í fyrirrúmi er samfélag sem er mun líklegra til að skara fram úr og sigla beinni braut til frekari sigra en samfélag sem þar sem hagsmunir hinna fáu ráða ríkjum. Í samfélagi aukins ójafnaðar kemur fyrr eða síðar til uppgjörs því þeir sem eru sviptir réttlátum hlut gæðanna munu rísa upp og krefjast þess að skipt verði upp á nýtt.
Umræðan í stéttarfélögunum og framsetning krafna fyrir komandi kjarasamninga hafa að markmiði að skipting verðmætanna verði réttlátari en er í dag. Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir samhengi hlutanna og reynum að skilja orsakir þess að þróunin vinni gegn markmiðinu um jöfn tækifæri allra. Takist okkur ekki að setja hlutina í rétt samhengi eru vaxandi líkur á að við séum ekki að snúa þróuninni við. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að það eru pólitísk öfl sem hafa áhrif á skiptingu gæðanna og stýra samfélagsþróuninni.

Hér má sjá viðtalið í heild.