Þurfum að þora að breyta orðum í athafnir

Á miðvikudaginn  felldi Félagsdómur dóm í máli RSÍ og RÚV en deilt var um hvort leyfilegt sé að fleiri en eitt stéttarfélag viðhafi  sameiginlega atkvæðagreiðslu um verkfall.  Niðurstaða dómsins er að slíkt sé ekki leyfilegt heldur verði atkvæðagreiðslan að fara fram í hverju félagi fyrir sig.  Þetta þýðir að Samiðn getur ekki viðhaft sameiginlega atkvæðagreiðslu meðal aðildarfélaganna um heimild til verkfalls.  Þrátt fyrir þessa niðurstöðu  dómsins mun hann ekki hafa  áhrif á undirbúning að hugsanlegum aðgerðum meðal aðildarfélaga Samiðnar.

Viðræðufundur iðnaðarmannasamfélagsins með SA fyrir viku síðan skilaði litlum árangri,  fundurinn fór að mestu í að ræða um framlagðar  kröfur  en skilaði okkur ekkert áfram.

Annar fundur var haldinn í dag og er sama að segja um hann,  menn þokast ekki hænufet  að lausn deilunnar en ákveðið var að halda áfram viðræðum.

Samhliða viðræðum við SA eru hafnar viðræður um einstaka sérsamninga.  Andrúmsloftið  á þeim fundum hefur verið gott og  komið  hefur fram skilningur  á nauðsyn þess að gera umhverfi iðnaðarmanna áhugaverðara fyrir ungt fólk.

Hins vegar er það mikið áhyggjuefni  hvað ríkir mikið skilnings- og áhugaleysi hjá SA og SI á að koma til samstarfs við iðnaðarmannasamfélagið um að gera nauðsynlegar breytingar á starfsumhverfi iðnaðarmanna  svo iðnaðurinn verði samkeppnishæfur við aðrar greinar um ungt fólk.

Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á jafnrétti milli karla og kvenna og hluti af þeim samfélagsbreytingum sem unnið  hefur verið  að er að  bæði kynin séu virkir þátttakendur í heimilisstörfum og barnauppeldi.  Þessar áherslur falla vel að kröfum  iðnaðarmanna um að dagvinnulaun eigi að duga fyrir framfærslu.

En það er alvarlegur tvískinnungur  hjá SA sem tekur undir þetta í orði en hafnar síðan að gera nauðsynlegar breytingar á kjarasamningum sem eru forsenda  þess að þeir sem starfa  í iðnaði hafi sömu tækifæri og aðrir til að skipta vökutímanum með eðlilegum hætti milli vinnu og fjölskyldulífs.  Lág dagvinnulaun og langur vinnutími falla illa að fjölskyldumarkmiðunum.

Þegar ungt fólk velur sér starf  horfir það til vinnutíma og launa.   Langur vinnutími meðal iðnaðarmanna sem er tilkominn vegna lágra launa er  fráhrindandi og beinlínis hrekur áhugasamt fólk frá iðnnámi og verður þess valdandi  að það velur í staðinn að fara hefðbundna bóknámsleið.

Æ fleirum er að verða ljóst  mikilvægi þess að gera iðnaðarmannastarfið áhugaverðara fyrir unga fólkið  og  um það hafa verið  haldnar margar falllegar ræður á hátíðisdögum.  Þessar hátíðarræður einar og sér hafa litlu skilað.

Krafa iðnaðarmanna er að koma þessum falllegu orðum í athafnir.

Reynslan er hins vegar sú að þegar kemur að því að taka  ákvarðanir skortir  vilja og þor hjá atvinnurekendum  til að stíga fram og brjótast út úr stöðnuðu   umhverfi,  sem allir eru þó sammála um að verði að gerast.

Nauðsynlegt  er að skoða kröfu iðnaðarmanna um 381.000 kr.í  byrjunarlaun í þessu ljósi og því markmiði að gera iðnaðarmannastarfið að eftirsóknarverðu ævistarfi með hóflegum vinnutíma og góðum launum.

Í mörgum iðnfyrirtækjum eru mikil tækifæri til að gera skipulagsbreytingar og  hagræðingu m.a. með styttingu vinnutímans og  skapa þannig forsendur  til  að hækka verulega  dagvinnu  án þess að til kostnaðarauka komi.  Í þessu sjá iðnaðarmenn mikil tækifæri  sem þeir vilja nýta til að  bæta bæði hag starfsmanna  og fyrirtækja.