Í dymbilvikunni hefur fátt nýtt skeð sem breytt hefur stöðunni í samningaviðræðunum nema það sem komið hefur fram í fjölmiðlum, að SA hefur tekið að sér að vera milliliður milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar.
Það að SA beri boð frá ríkisstjórninni er fyrst og fremst táknrænt um það vantraust sem ríkir á milli verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnar þ.e. að ekki er um bein samskipti að ræða eins og löng hefð er fyrir.
Velferðaráðherra hefur boðað að hún muni leggja fjögur frumvörp fyrir þingið um húsnæðismál og telur það mikilvægt innlegg í kjarasamninga. Í öllum kjarasamningum síðari ára hafa verið áherslur um úrbætur í húsnæðismálum og oftast hafa fylgt fyrirheit stjórnvalda um framtíðarlausnir.
Frá árinu 2008 hafa meira og minna verið starfandi nefndir sem gert hafa tillögur um úrbætur í húsnæðismálum til viðkomandi ráðherra. Því miður hafa aðgerðir ekki fylgt í kjölfarið og ástæðan sú að ríkisvaldið hefur ekki verið tilbúið að leggja fram þá fjármuni sem þarf til að hrinda tillögunum í framkvæmd, þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Því ber að fagna að velferðaráðherra leggi fram frumvörp og stuðli að nýrri lagasetningu um húsnæðismál en það verður að fylgja fjármagn. Það kann að verða erfitt að selja verkafólki húsnæðismálin enn einu sinni sem lausn við gerð kjarasamninga, því með réttu eru stjórnvöld að sýna viðleitni við að uppfylla gefin loforð.
Það ætti öllum að vera ljóst að félagsmenn stéttarfélaga vilja fyrst og fremst launahækkanir en ekki félagsmálapakka enda snúa þeir að öllum en ekki sérstaklega launafólki.
Eins og staðan er núna eru samningamálin komin í páskafrí og ekki líklegt að þráðurinn verði tekin upp fyrr en af því loknu.
Næsti sameiginlegi fundur hjá iðnaðarmannasamfélaginu verður ekki fyrr en 13. apríl og á þeim fundi verður staðan metin og tekin ákvörðun um hvernig brugðist verður við stöðunni eins og hún verður á þeim tímapunkti.
Sama dag er samninganefnd Samiðnar boðuð til fundar og fyrir þeim fundi liggur m.a. að taka ákvörðun um hvort hefja eigi undurbúning að aðgerðum.
Vonandi eigum við öll framundan ánægjulega páska, komum aftur til starfa full orku og tilbúin að fylgja eftir okkar kröfum ef til þess kemur að við þurfum að fylgja þeim eftir með aðgerðum. Eins og staðan er núna í viðræðunum við SA bendir ekkert til annars en svo verði.
Tekið saman af Þorbirni Guðmundssyni