Í dag vísuðu Samtök atvinnulífsins kjaraviðræðum Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins til sáttasemjara ríkisins. Með þessari ákvörðun hafa Samtök atvinnulifsins slitið viðræðum sem staðið hafa yfir síðustu vikurnar og er nú svo komið að búið er að vísa kjaraviðræðum stærsta hluta aðildafélaga ASÍ til sáttasemjara og mun hann framvegis stýra vinnunni. Þessi staðreynd að SA slítur einhliða viðræðum og vísar kallar á að iðnaðarmannasamfélagið endurmeti stöðuna og fari að huga að því hvort tímabært sé að láta fara fram kosningu um verkfallsheimild. Miðað við gang viðræðna þá virðist þurfa að skapa þrýsting til að fá fulltrúa atvinnurekenda og ríkisins að samningaborðinu.
Næst komandi mánudag verður haldinn fundur í iðnaðarmannasamfélaginu þar sem staðan verður metin og ekki ólíklegt að þar verði rætt um hvort og hvenær rétt sé að boða til verkfalla.