Mikil umræða og umfjöllun er um endurnýjun kjarasamninga og verkföll því tengd. Minni umfjöllun er um hvers vegna erum við komin í þá stöðu sem við erum í, það er að verkföll eru skollin á og munu skella á með meiri þunga á næstu dögum ef ekki tekst að semja.
Sú mikla reiði almennings sem m.a birtist í kröfum stéttarfélaganna og skírum vilja til að beita verkföllum til að knýja fram niðurstöðu í kjarasamningsviðræðum á sér rætur í þeirri miklu miskiptingu og ósætti sem er í samfélaginu.
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um það samfélagsform sem við vilju hafa hér á Íslandi
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um heilbrigðiskerfið
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um menntakerfið
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um áherslur í samgöngumálum
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um almannatryggingar
Okkur hefur ekki tekist að tryggja velferð barna
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um málefni öryrkja
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt um málefni aldraða
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt stefnu í fiskveiðimálum
Okkur hefur ekki tekist að ná sátt í umhverfismálum
Okkur hefur ekki tekist að ná samkomulagi um húsnæðismál
Þegar svo mikill og djúpstæður ágreiningur er uppi í samfélaginu um undirstöður samfélagsins er ekki að undra að almenningur bregðist við og beiti þeim tækjum sem hann hefur til að spyrna við fótum.
Stéttarfélögin hafa frá byrjun síðustu aldar lagt mikla áherslu á samfélag þar sem öllum eru tryggð sömu tækifæri án tillit til efnahags eða kynferðis.
Í samfélagi þar sem ríkir viðvarandi óeining um grundvallarstoðir samfélagsins, er mjög erfitt að byggja upp innviði sem eru forsenda þess að hægt sé að tryggja öllum jöfn tækifæri.
Mikil og viðvarandi óeining og skortur á framtíðarsýn um hvert skal halda birtist með skýrum hætti á Alþingi Íslendinga. Í staðinn fyrir uppbyggingu samfélagsins eyða stjórnmálamenn mikilli orku og tíma í að taka til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert í stað þess að byggja ofan á fyrri ákvaðanir.
Þessi árátta stjórnmálamanna verður til þess að okkur miðar hægt áfram og við Íslendingar erum að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við viljum miða okkur við.
Átökin á íslenskum vinnumarkaði eru ekki eingöngu átök um krónur og aura, krafan er einnig um velferðarkerfi þar sem almenningi er tryggð jöfn tækifæri til menntunar, heilbrigðisþjónustu, umönnunar og húsnæðis.
Almenningur vill pólitíska sátt í samfélaginu um grunnstoðir samfélagsins og þar sé viðvarandi uppbyggingastarf en ekki viðvarandi niðurrif eins og víða blasir við.
Til að hægt sé að byggja upp traust milli almennings og stjórnvalda og skapa varanlegan frið á vinnumarkaði, verða stjórnmálamenn að taka upp ný vinnubrögð og sína í verki að þeir virði grundvallar gildi samfélagsins um að tryggja öllum jöfn tækifæri án tillit til efnahags.
Sáttin sem við viljum öll ná með nýjum kjarasamningi snýst um fleira en krónur og aura, átökin snúast um kröfuna um jöfn tækifæri fyrir alla.