Föstudaginn 5. júní sl. var gert samkomulag í yfirstandandi kjaraviðræðum milli iðnaðarmannasamfélagsins og SA um samningsramma er lýtur að launabreytingum, samningstíma og breytingum á kauptöxtum. Einnig var gert samkomulag um að fresta verkfalli sem átti að koma til framkvæmda 10. júní sl. til kl. 24:00 þann 22. júní. Um þetta var engin ágreiningur milli iðnaðarmannafélaganna.
Samninganefnd Samiðnar var einróma sammála um að vinna á forsendum samkomulagsins og freista þessa að ljúka samningum á forsendum samkomulagsins og leggja niðurstöðuna í dóm félagsmanna.
Samninganefndin hefur unnið markvist að því að láta reyna á hvort hægt sé að ljúka samningi og niðurstaða lægi fyrir áður en til verkfalls kæmi. Á fundi með SA í gærkvöldi stóðu mál þannig að fyrir liggja drög að samningi og ef samkomulag næst um þau ágreiningsmál sem út af standa er stefnt að undirritun nýjs kjarasamnings á mánudag.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um afboðun eða frestun verkfalls sem hefst að öllu óbreyttu aðfaranótt 23. júní.