Nú stendur yfir kosning um þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið við Samtök atvinnulífsins, Félag pípulagningameistara, Bílgreinasambandið, Samband garðyrkjubænda og meistarafélög í byggingariðnaði innan Samtaka iðnaðarins. Kosningunni lýkur 15. júlí og ætti niðurstaðan að liggja fyrir um miðjan dag. Verði þeir felldir og samningar takast ekki mun koma til verkfalla 6. september. Verði samningarnir hins vegar samþykktir gilda þeir til loka árs 2018.
Mikilvægt er að góð þátttaka verði í kosningunni þannig að vilji félagsmanna sé skýr ekki síst ef niðurstaðan verður að félagsmenn telji að sækja eigi meira en kjarasamningarnir gera ráð fyrir.
Hvað varðar aðra samninga s.s. við ríkið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landsvirkjun, Orkuveituna og Kirkjugarðana þá hefur verið gert samkomulag um að fresta vinnu við þá fram í miðjan ágúst en þeir muni gilda frá 1. maí ef samningar takast fyrir 30. september.