Kjarasamningur undirritaður við OR-ON

Í gærkveldi undirrituðu iðnaðarmenn nýjan kjarasamning við OR-ON sem gildir frá 1. maí 2015 til ársloka 2018.
Kjarasamningurinn er gerður á hliðstæðum nótum og kjarasamningarnir sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði s.l. sumar. Samhliða gerð almenns kjarasamnings voru gerðar umfangsmiklar breytingar á gildandi launkerfum sem hafa verið við lýði hjá OR-ON um langt árabil. Verði samningurinn staðfestur af starfsmönnum mun ábatakerfið, sem starfrækt hefur verið samhliða almennu taxtakerfi, aflagt og fært inn í grunnlaunin. Við þessa aðgerð hækka grunnlaun iðnaðarmanna töluvert án verulegs kostnaðarauka. Kostnaðaráhrif samningsins verða því örlítið meiri í upphafi vegna kerfisbreytinganna m.a. vegna hækkunar á yfirvinnu og álagsgreiðslum. Áfangahækkanir sem koma til á tímabilinu 2016-2018 eru þær sömu og í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði. Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum en atkvæðagreiðslu skal lokið fyrir kl.16:00 þann 16. nóvember n.k.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hilmar Harðarson formann Samiðnar undirrita samninginn ásamt fulltrúum starfsmanna.

 Sjá samninginn.