Árið sem brátt kveður okkur hefur einkennst af mikilli umræðu um kjaramálin og samningagerð. Segja má að kjaramálin hafi farið nokkra hringi og ekki er séð fyrir endan á því. Ekki liggur fyrir hvort næst endanlegt samkomulag um SALEK verkefnið, þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir rammasamkomulag. Enn á eftir að leysa mörg stórmál og má þar nefna lífeyrismál og lækkun tryggingagjalds. Niðurstöðu þarf að ná fyrir 1. febrúar annars eru miklar líkur á að kjarasamningum verði sagt upp í febrúar n.k.
Nýgerðir kjarasamningar gefa fyrirheit um að í lok samningstímans búi íslenskir launamenn við hliðstæðan kaupmátt og launamenn á hinum Norðurlöndunum. Til þess að svo geti orðið er nauðsynlegt að hér á landi ríki efnahagslegur stöðugleiki, þar sem verðlagsbreytingar eru í takt við það sem er í okkar viðskiptalöndum, vextir séu sambærilegir og almenningur búi við efnahags- og félagslegt öryggi. SALEK samkomulagið er tilraun til að skapa forsendur og samstöðu um efnahagslegan stöðugleika. Þess vegna er svo mikilvægt að við náum víðtæku samkomulagi sem tryggir að við getum öll hafið nýja vegferð inn í framtíðina. Öllum ætti að vera það ljóst að SALEK verður aldrei að veruleika nema stjórnvöld spili með en því miður eru vanhöld á því. Ríkisstjórnin virðist ekki skilja eða skynja það mikla tækifæri sem getur falist í því að bæði stjórnvöld og vinnumarkaðurinn komi sameiginlega að mótun efnahagsrammans sem við viljum sjá hér á næstu árum. Ef þetta tækifæri verður ekki neglt niður núna munum við festast enn og aftur í gamla farinu þar sem verðbólga étur upp kaupmáttinn.
Við hjá Samiðn höfum lokið gerð kjarasamninga við alla okkar viðsemjendur nema Samband Íslenskra sveitarfélaga. Samninganefnd Samiðnar er ekki sátt við það tilboð sem komið hefur frá sambandinu og ber þar hæst misjafnlega sýn á gildandi starfsmat og hvernig menntun er metin. Því miður tókst ekki að ljúka þessum viðræðum fyrir áramót en samkomulag er um að hefja viðræður strax eftir ármótin.
Samiðn, Matvís og VM koma sameignlega að þessum viðræðum og hafa lagt fram sameiginlegar tillögur til breytinga á tilboði SÍS. Hvort þær duga til að samkomulag náist, liggur ekki fyrir en fullur vilji er hjá fulltrúum launamanna til að ljúka þeim fyrst. Niðurstaðan ræður því hvort samkomulag er í höfn eða ekki. Laun iðnaðarmanna hjá sveitarfélögum eru með því lægst sem þekkist og því orðið mjög brýnt að á því verði breyting. Það er sameiginleg niðurstaða samninganefndanna að nú verði að stíga fyrsta skrefið til bættra kjara iðnaðarmanna sem vinna hjá sveitarfélögunum og ekki sé hægt að ljúka samningum án þess að sú verði raunin.
Að þessu sögðu þökkum við fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonumst eftir góðu samstarfi á komandi ári. Framundan eru mörg áhugaverð og ögrandi verkefni sem spennandi verður að takast á við.