Takk fyrir árið 2015!

Nú er árið 2015 að kveðja og nýtt ár að taka við með öllum þeim tækifærum sem það ber í skauti sér. Árið 2015 var að mörgu leyti óvenjulegt fyrir okkur sem erum að sinna málefnum stéttarfélaga. Samiðn hefur lagt ríka áherslu á að mikilvægt sé að skapa efnahagslegan stöðugleika og skapa með því forsendur til að kaupmáttur geti farið vaxandi á næstu árum. Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á síðustu mánuðum munu reyna verulega á efnahagsstjórnina. Takist vel til hefur okkur tekist að leiðrétta kaupmáttinn á styttri tíma en vænta mátti.
Það verður því áhugavert að sjá hvernig til tekst á nýju ári að spila úr þessari flóknu stöðu. Það er margt fleira sem áhugavert verður að sjá hvernig okkur tekst til með og má þar nefna lífeyrismálin. Lengi hefur verið til staðar áhugi á að samræma lífeyriskerfin og 2011 var gerð bókun með kjarasamningum um að iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði verði samræmd við það sem er hjá starfsmönnum á opinberum vinnumarkaði. Þessi bókun var skilyrt af hálfu SA í þá veru að samstaða næðist um samræmingu lífeyriskerfanna. Frá 2011 hefur verið unnið að því að ná samstöðu um framtíðarskipan lífeyrismála en ekki hefur tekist að ljúka þeirri vinnu. Á árinnu 2016 gæti dregið til tíðinda og kannski höfum við aldrei verið nær því að ná saman, en rétt er að ítreka að niðurstaða er ekki komin fyrr en hún hefur verið staðfest.
Nú er unnið að því að ná niðurstöðu um SALEK samkomulagið þ.e. hvernig við viljum standa að kjarasamningum á næstu misserum. Niðurstaðan þarf að liggja fyrir 1. febrúar en þá er gert ráð fyrir að reyni á endurskoðunarákvæði kjarasamninga.

Um leið og við kveðjum árið 2015 er full ástæða að horfa með tilhlökkun til ársins 2016 ekki síst með tilliti til þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd.

Samiðn þakkar gott samstarf á árinu með óskum um gleðilegt nýtt ár og ósk um gott samstarf á nýju ári.