Við viljum efnahagslegan stöðugleika með lítilli verðbólgu

Nú er næstum lokið endurnýjun kjarasamninga en sú vinna hófst í lok árs 2014 og hefur staðið síðan með stuttu hléi s.l. sumar. Það skal viðurkennast að þetta langa ferli er ekki gott vinnulag en það kerfi sem við búum við leiðir þetta af sér. Á Íslandi eru gerðir ótrúlega margir kjarasamningar og margir þeirra taka til örfárra félagsmanna en fyrir vikið er þetta ferli mjög þungt og tímafrekt. Fyrir dyrum stendur endurskoðun á ferlinu og innleiðing á nýju vinnulagi sem vonandi leiðir til margvissari vinnubragða.
Hjá okkur í Samiðn stendur yfir kosning um kjarasamning milli Samiðnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og eru þá eftir einn eða tveir kjarasamningar. Á sama tíma og við erum að ganga frá síðustu kjarasamningunum er hafin endurskoðun á gildandi kjarasamningum sem gerðir voru á milli SA og stéttarfélaga innan ASÍ s.l vor.
Stefnt er að því að láta á það reyna að ljúka þeirri endurskoðun fyrir næstu mánaðarmót. Samkvæmt rammasamkomulaginu sem er kennt við SALEK er markmiðið að stilla af launahækkanir þannig að allir hópar fái hliðstæðar launahækkanir á samningstímanum. Takist samkomulag verður væntanlega gerður nýr kjarasamningur við SA sem gildir til ársloka 2018.
Það er mikilvægt að það náist sátt á íslenskum vinnumarkaði til að festa í sessi þann efnahagslega stöðugleika sem ríkt hefur síðustu mánuði. Ef það tekast og okkur tekst að varveita þann kaupmátt sem samið hefur verið um hefur verið stigið stórt skref í þá átt að færa kaupmátt íslensks launafólks að því sem er í okkar nágrannalöndum.
Þær viðræður sem nú standa yfir um endurskoðun kjarasamninga eru því mikilvægar og það skiptir okkur öll máli að farsæl niðurstaða fáist. Við viljum öll batnandi lífskjör með vaxandi kaupmætti en forsenda þess að svo geti orðið er að hér ríki efnahagslegur stöðugleiki með lítilli verðbólgu.