Aðgangur að góðu húsnæði eru mannréttindi

Eins langt og maður man hefur verið umræða á Íslandi um mikilvægi þess að koma upp húsnæðiskerfi sem tryggði öllum aðgang að góðu húsnæði. Gerðar hafa verið margar hallarbyltingar og nýir ráðherrar húsnæðismála komið með nýjar lausnir sem hafa átt að leysa eldri kerfi af hólmi og mæta þörfum almennings. Staðreyndin er sú að engar þessar lausnir hafa staðist þær væntingar sem til þeirra hafa verið gerðar og ekki hefur tekist að skapa um þær sátt sem er forsenda þess að þær standist til lengdar.
Ef Íslendingar ætla og hafa vilja til að byggja húsnæðismarkaðinn upp í líkingu við það sem er á hinum Norðurlöndunum er mikilvægt að það skapist sátt um kerfin og þau geti staðist til lengri tíma. Húsnæðiskerfi sem er skipt út eftir eitt kjörtímabil skapar ekki þá festu sem verður að vera á íbúðamarkaðnum.
Allt síðasta kjörtímabil voru í gangi nefndir um húsnæðismál sem skiluðu litlu út í raunveruleikann og leiddu ekki til breytinga þrátt fyrir brýna þörf. Nú hefur núverandi ríkisstjórn setið tæp þrjú ár án þess að neitt hafi gerst í húsnæðismálum. Mikil nefndarvinna hefur verið gangi allt kjörtímabilið sem er að stórum hluta endurtekning frá fyrra kjörtímabili. Nú liggja fyrir Alþingi frumvörp um nýtt húsnæðiskerfi og sérstaklega félagslega hlutann. Verði frumvörpin samþykkt á næstu mánuðum og taka gildi fyrir lok þingsins liggur fyrir að á yfirstandandi kjörtímabili verða engar félagslegar íbúðir byggðar af hálfu stjórnvalda eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Að byggja íbúðir tekur allt að tveimur árum svo það mun koma í hlut næstu ríkisstjórnar taka við gefnum loforðum um byggingu 2000 félagslegra íbúða.
Þetta er döpur niðurstaða því á með stjórnvöld velta málunum á undan sér eru þúsundir fjölskyldna í miklum vanda og eiga enga möguleika á að koma sér varanlega fyrir og þurfa að sæta okurleigu til að halda húsnæðinu.