Finnbjörn A. Hermannsson formaður Byggiðnar gerir félagsleg undirboð á byggingamarkaðnum að umfjöllunarefni í leiðara nýjasta fréttabréfs Byggiðnar. Hann gagnrýnir harðlega að ríki, sveitarfélög og stórfyrirtæki gangi til samninga við þekkta kennitöluflakkara og undirverktaka með allt niður um sig og sýni þannig ábyrgðarleysi og eru í raun þjófsnautar. Hann veltir fyrir sér hvers vegna ekki sé búið að uppræta kennitöluflakkið og hvers vegna ekki sé búið að setja í útboðsskilmála Framvæmdasýslu ríkisins að aðalverktakar taki ábyrgð á undiverktökum sínum.
„Eitt af einkennum íslensks byggingamarkaðar er óstöðugleikinn. Atvinnustigið er ýmist í ökkla eða eyra. Þessum óstöðugleika fylgir ýmist atvinnuleysi fyrir iðnaðarmenn eða skortur á iðnaðarmönnum. Eftir hrunárið 2008 hefur verið mikið atvinnuleysi eins og alþjóð veit og var allt fram undir mitt ár 2014. Eftir það hefur störfum farið fjölgandi og er nú svo komið að við önnum ekki eftirspurn eftir iðnaðarmönnum. Við tilkomu samevrópsks vinnumarkaðar hefur verið auðveldara að fá starfsmenn frá útlöndum. Flest fyrirtæki hafa fengið erlenda starfsmenn í sína þjónustu í beinu ráðningarsambandi og greiða þeim laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum, þó til séu undantekningar frá því. Önnur ráðningarform, sem hafa verið að ryðja sér til rúms, eru starfsmannaleigur sem leigja einstaka starfsmenn til fyrirtækja en eru með þá á launaskrá hjá sér og ráðning erlendra fyrirtækja með sinn erlenda mannskap í verkefni á Íslandi.
Veruleg aukning hefur verið undanfarið á að fyrirtæki nýti sér smugu í skattakerfinu með því að „ráða“ fyrirtæki sem skráð eru erlendis sem undirverktaka. Þessi undirverktakafyrirtæki skrá starfsstöð hér á landi eða ekki og nota starfsmenn sem eru innan við 183 daga í vinnu hér á landi. Með þessu geta þau komist hjá að greiða skatta og skyldur til íslensks samfélags. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru yfir 300 starfsmenn skráðir á síðasta ári á þessum kjörum. Reynsla okkar er sú að það er aðeins hluti þeirra starfsmanna sem koma til landsins sem eru skráðir inn í landið sem starfsmenn. Allt of margir byrja að vinna og þegar vinnustaðaeftirlit okkar grípur þá, þá eru þeir „nýkomnir“ til landsins og á leiðinni að fara að skrá sig að eigin sögn. Því má ætla að þessir starfsmenn séu mun fleiri en tölur VMST gefa til kynna.
Það er aumt til að vita að stórfyrirtæki á Íslandi, fjárfestingafélög og aðrir sem nýta sér þessar glufur í íslensku skattakerfi séu svo andfélagslega sinnuð sem raun ber vitni. Það er ekki mikil samfélagsleg ábyrgð í slíkri hegðun. Með þessum hætti er verið að grafa undan launum okkar félagsmanna. Iðnlöggjöfin og fagréttindi eru fótum troðin af þessum fyrirtækjum og miklar líkur eru á að þessum starfsmönnum séu ekki greidd þau laun sem þeim ber.
Alþýðusambandið, með stuðningi aðildarfélaga sinna, er að hefja stórátak gegn slíkri starfsemi undir heitinu „Einn réttur – ekkert svindl“. Baráttan felst helst í að stórauka eftirlit stéttarfélaga á vinnustöðum, auka fræðslu til erlendra starfsmanna og nánara samstarf við þau yfirvöld sem málið varðar, svo sem skattinn, lögregluna, vinnueftirlitið og vinnumálastofnun.
Það sem félagsmaðurinn getur helst gert til að sporna við þessum félagslegu undirboðum og í einhverjum tilfellum mansali, er að vera á verði og láta félagið vita ef hann telur að verið sé að greiða erlendum starfsmönnum undir þeim launum sem þeir eiga að fá. Einnig þarf að láta vita ef um óeðlilegan vinnutíma er að ræða hjá erlendum starfsmönnum.
Það er með öllu ólíðandi að fyrirtæki komist upp með að undirbjóða markaðinn á þessum forsendum. Það tapa allir á því til lengdar.
Lausnin við þessu er samábyrgð fyrirtækja og verkkaupa.
Fyrsta einkenni þess að verið sé að svindla á starfsmönnum eru óeðlilega lág tilboð. Það er á forræði verkkaupa hverju sinni hvaða tilboði hann tekur. Síðan er það á forræði aðalverktaka hvaða undirverktaka hann velur til einstakra verka.
Því verður að leggja ábyrgð á þessa aðila. Með því verða fyrirtæki og verkkaupi ábyrgari í vali á undirverktökum. Það er aumt að sjá ríki og sveitarfélög taka tilboðum þekktra kennitöluflakkara í verk sem boðin hafa verið út. Það er líka aumt að sjá stórfyrirtæki ráða undirverktaka sem eru með allt niður um sig. Að þau skuli ekki láta undirverktaka framvísa skráningu starfsmanna til Vinnumálastofnunar og skattsins, að þeir athugi ekki að þeir séu með opið vsk númer eða að þeir skoði ekki hve margar kennitölur hanga á baki forsvarsmanna þeirra sem þeir eru að ráða í vinnu, sýnir algert ábyrgðarleysi. Því má með sanni segja að þeir séu þjófsnautar þegar launamenn fá of lág laun eða alls engin laun og þegar ekki er staðið skil á launatengdum gjöldum, lífeyrissjóð eða staðgreiðslu skatta.
Hvers vegna skyldi ekki vera búið að uppræta kennitöluflakk? Hvers vegna skyldi ekki vera í útboðsskilmálum Framkvæmdasýslu ríkisins skylda aðalverktaka að taka á sig ábyrgð á undirverktökum og hvers vegna skyldu opinberir aðilar taka tilboðum sem eru langt fyrir neðan kostnaðaráætlanir í viðkomandi verk? Sennilega hafa einhverjir, sem gætu breytt þessu, hag af óreiðunni.“