Þingi Samiðnar lokið: Nýtt vinnumarkaðslíkan og breytingar á lífeyrissjóðakerfinu

Á áttunda þingi Samiðnar sem haldið var á Grand hóteli um helgina var fjallað um nýtt vinnumarkaðslíkan og fyrirhugaðar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.  
Meðal frummælenda um nýtt vinnumarkaðslíkan voru Hannes Sigurðsson aðstoðarframvkæmdastjóri SA, en í erindi sínu lagði hann áherslu á að kjarasamningar sem stuðla að efnahagslegum stöðugleika skiluðu bættum lífskjörum þegar til lengri tíma litið. Hann sagði mikla þörf á bættum vinnubrögðum við allan undirbúning kjarasamninga og þeir byggi á raunverulegum kjarabótum.  
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ fór yfir sýn ASÍ og reynslu hinna Norðurlandanna af sínum samningslíkönum sem eru mismunandi eftir löndum. Hann ræddi einnig um þau tækifæri sem felast í breyttu skipulagi við kjarasamningsgerðina sem m.a gæti falið í sér aukinn efnahagstöðugleika og lægri vexti.  
Jens Bundvad framkvæmdastjóri IN gerði grein fyrir mismunandi samningalíkönum á hinum Norðurlöndunum og reynsluna af miðlægu líkani. Almennt hefur þetta form leitt til meiri efnahagslegs stöðuleika og vaxandi kaupmáttar á hinum Norðurlöndunum.  
Lífeyrismálin voru til umfjöllunar á laugardag með innleiðingu Þorbjörns Guðmundssonar framkvæmdastjóra Samiðnar. Hann fór yfir breytingar í aldursamsetningu þjóðarinnar og þróuninni næstu áratugina. Hann fór yfir þær tillögur og hugmyndir sem eru í umræðunni, bæði hvað varðar breytingar á almannatryggingum og lífeyrissjóðakerfinu. Þær breytingar sem verið er að ræða eru m.a annars breytingar á lífeyristökualdri.
Að lokum framsöguerindum voru málin rædd í starfshópum og verða niðurstöður hópastarfsins birtar síðar. 
Á þinginu var Hilmar Harðarson endurkjörinn formaður Samiðnar og Jóhann Rúnar Sigurðsson sem varaformaður til næstu þriggja ára.

>> Sjá samþykktir þingsins.