Samrunasamningur Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa kynntur

Á sjóðsfélagafundum Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa s.l. þriðjudag var kynntur samrunasamningur ásamt tillögum stjórnanna að samþykktum fyrir nýjan sjóð. Að fundinum loknum undirrituðu stjórnirnar samrunasamninginn og jafnframt var ákveðið að boða til auka ársfunda 29. september n.k. og í framhaldi af þeim boða til stofnfundar nýs sjóðs.
Tryggingafræðileg úttekt leiðir í ljós að staða sjóðanna er mjög áþekk og einnig eru samþykktir hliðstæðar og kalla ekki á róttækar breytingar.
Þegar sameiningin hefur átt sér stað, verði hún samþykkt á auka ársfundum sjóðanna, verður til lífeyrissjóður með rúmlega 18.000 virka sjóðsfélaga og eignir upp á rúma 300 milljarða króna. Sjóðurinn verður fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins bæði hvað varða eignir og fjölda virkra sjóðsfélaga.
En hvers vegna er verið að stækka lífeyrissjóði?   Er líklegt að það skili einhverjum ávinningi til sjóðsfélagana?
Ef horft er til annarra sjóða kemur í ljós að hlutfallslega er rekstrarkostnaður lægri hjá stærri sjóðum.
Stjórnvöld eru í auknum mæli að gera meiri kröfur um eflingu innra starfs sjóðanna sem kallar á sérhæfða þekkingu. Aukin þörf er fyrir sjóðina að byggja upp öflugar eignarstýringardeildir sem hafi getu til að meta fjárfestingakosti á sjálfstæðan hátt.
Það er erfitt fyrir minni sjóðina að mæta þessari þróun án þess að hlutfall rekstarkostnaðar af eignum sjóðanna verði of hátt hlutfall í samanburði við aðra lífeyrissjóði.
Verði af sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa eins og flest bendir til hefur verið stígið mikið gæfuspor sem í framtíðinni á eftir að skila sér í betri lífeyri til okkar sjóðsfélaganna.