Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 10.febrúar sl. að hvetja ríki, sveitarfélög og vinnumarkaðinn til þjóðarátaks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en þörf er á 3-4000 nýjum íbúðum til að slá á eftirspurnina sem leitt hefur til óbærilegrar hækkunar íbúðaverðs og húsaleigu.
Jafnframt áréttaði miðstjórnin fyrri ályktun, þar sem niðurstöðu kjararáðs um hækkun launa alþingismanna og æðstu embættismanna er mótmælt, og skorar á Alþingi að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og færa til samræmis við rammasamkomulagið sem tengt er við SALEK. Miðstjórnin minnir á að niðurstaða kjararáðs verður eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar þegar mat verður lagt á hvort forsendur kjarasamninganna hafa staðist.