Við getum verið stolt af okkar lífeyrissjóðakerfi

Í gær kynntu Landssamtök lífeyrissjóða samantekt sem byggir á gögnum frá OECD og öðrum opinberum aðilum um lífeyriskerfi Íslands, Svíþjóðar, Bretlands, Hollands og Danmerkur. Ástæðan þess að lífeyriskerfi þessara landa voru valin er að þau þykja skara fram úr og til þeirra er horft þegar gæði lífeyriskerfa eru metin. Í stuttu máli má segja að íslenska lífeyriskerfið stenst ágætlega þennan samanburð en sker sig úr í nokkrum atriðum.
Þegar talað er um íslenska lífeyriskerfið er átt við almannatryggingar og lífeyrissjóðina og þau lífeyrisréttindi sem einstaklingar fá í þessum tveimur kerfum.
Það sem einkennir íslenska lífeyriskerfið eru miklar tekjutengingar sem eru mun meiri á Íslandi en þekkist í samanburðarlöndunum, mikil atvinnuþátttaka lífeyrisþega og almennt fara Íslendingar mun síðar á lífeyri og lífeyrisþegar eru þar af leiðandi mun styttri tíma á lífeyri og getur það munað allt að fjórum árgöngum.
Þessi mikla sérstaða ætti að skapa forsendur fyrir því að lífeyrir væri mun hærri á Íslandi en í samanburðarlöndunum ef horft er til þess sparnaðar sem fellur til vegna seintöku lífeyris og þess að íslenskir lífeyrisþegar eru mun styttra á lífeyri.
Einnig sker Ísland sig úr hvað íslenska ríkið ver litlum fjármunum til lífeyrismála
Ef horft er til útgjalda íslenska ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er Ísland að verja 2% Svíþjóð 7% og Danmörk 8% svo eitthvað sé nefnt.
Eitt af því sem horft er til er hvernig kerfið ver fólk fyrir fátækt og í þeim samanburði kemur íslenska kerfið ágætlega út í samanburði við hin löndin.
Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að þessi samanburður tekur fyrst og fremst til þess hvaða réttindi einstaklings myndu vera ef hann hefði byrjað að greiða í lífeyrissjóð árið 2014 og það framreiknað miðað við 40 ára inngreiðslu.
Þrátt fyrir að íslenska lífeyriskerfið komi vel út í þessum samanburði segir það ekki til um hvort einhverjir hópar sem eru að taka lífeyri í dag eða fara á lífeyri á næstu árum, hafi góða afkomu. Það er vitað að hópur lífeyrisþega býr við erfið kjör og það má lítið útaf bera svo illa fari.
En við getum hins vegar dregið þá ályktun af þessum samanburði að lífeyrissjóðakerfið sem við höfum verið að byggja upp síðustu áratugi, stenst vel allan samanburð við það besta sem þekkist í heiminum.
Það er rétt að hvetja alla sem áhuga hafa á að kynna sér samantektina því hún er gott innlegg í umræðuna um íslenska lífeyriskerfið og er öllum aðgengileg á lifeyrismal.is