1. maí: HÚSNÆÐISÖRYGGI – SJÁLFSÖGÐ MANNRÉTTINDI!!

Eitt af þeim málum sem gengur sem rauður þráður í gegnum sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi í 100 ár er krafan um mannsæmandi húsnæði á sanngjörnum kjörum.  Þetta verkefni hefur komið til okkar í verkalýðshreyfingunni af fullum þunga með reglulegu millibili í heila öld. Og það er hrópar enn í dag.
Í árdaga verkalýðsbaráttunnar og lengi framan af síðustu öld var það lélegt húsnæði og viðvarandi húsnæðisskortur sem voru vandamálin. Í dag er það húsnæðisskortur og hátt verð bæði til kaups og leigu sem gerir það að verkum að stórir hópar fólks eru í miklum vanda og sumir komast hreinlega ekki inn á húsnæðismarkaðinn.  Er þar fyrst og fremst um að ræða ungt fólk og tekjulága einstaklinga. Ástandið er grafalvarlegt og það mun ekki lagast nema að ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.
Það var af þessari ástæðu sem ASÍ og BSRB réðust í stofnun Bjargs – íbúðafélags á 100 ára afmæli ASÍ í fyrra. Það var af þessari ástæðu sem aðildarfélög ASÍ settu uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis inn í kjarasamningana 2015 þannig að ríkið komi með fjármagn fyrir 600 íbúðum á ári næstu árin. 
Það þarf einfaldlega að lyfta grettistaki til að þjóðin komist út úr þeim ógöngum sem hún hefur ratað í í húsnæðismálum. 
Við Íslendingar viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.

Göngur og baráttufundir eru víða um land í tilefni af 1. maí alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.  

Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík verður sem hér segir: 
> Safnast saman á horni Laugavegs og Snorrabrautar klukkan 13:00
> Kröfuganga hefst klukkan 13:30
> Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10

Dagskrá:
Söngfjelagið
Ræða: Lilja Sæmundsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina
Söngfjelagið
Ræða: Garðar Hilmarsson formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar
Amabadama flytur 2 lög
Söngfjelagið/samsöngur – Maístjarnan og Internationalinn
Fundi slitið
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Hulda M. Halldórsdóttir syngur á táknmáli
Agnes Steina Óskarsdóttir túlkar á táknmáli