Árið 2018 er ár tækifæranna

Árið 2017 sem er brátt á enda hefur verið gott á heildina litið. Kaupmáttur launa hefur sjaldan verið meiri og verðlag haldist stöðugt. Batnandi staða almennings hefur birst m.a í aukinni neyslu, fleiri hafa endurnýjað bílinn og mikil aukning er í utanlandsferðum. Þetta hefur gerst hraðar en almennt var reiknað með eftir mikla niðursveiflu í kjölfar hrunsins. Ytri aðstæður hafa verið okkur hagstæðar sem hefur gert okkur mögulegt að hækka laun án þess að það hafi farið beint út í verðlagið eins og oft hefur gerst í kjölfar mikilla launahækkana.
Verkefni næsta árs verður að varðveita þennan góða árangur og halda áfram að byggja ofan á grunninn sem búið er að byggja upp.
Forsendan fyrir því að okkur takist að varðveita árangur síðustu ára er að allir rói í sömu átt. Ef reyndin verður sú að þeir sem eru betur settir taki miklu meira til sín en öðrum stendur til boða má öllum vera ljóst að þá endum við í gamla farinu þar sem allt fer úr böndum og óstöðugleiki heldur innreið sína á ný.
Miklu máli skiptir að ný ríkisstjórn taki málin föstum tökum og móti skýra stefnu í launamálum ríkisins. Það gengur ekki að ríkið móti kjarastefnu sem gengur í berhögg við svigrúm atvinnulífsins.
Sú staðreynd að fjöldi fólks er á lágmarkslaunum, sem í dag eru 280.000 kr. kallar á algjöra uppstokkun. Umsamin lágmarkslaun eru öryggisnet en það getur ekki verið ásættanlegt að þau séu notuð sem virkur launataxti eins reyndin er gagnvart fjölda fólks og á það ekki síst við um erlenda starfsmenn.
Mikilvægt er að taka til í starfsgreinum sem tengjast mannvirkjagerðinni. Í gegnum árin hefur t.d. byggingageirinn boðið upp á ágæt laun og innstreymi ungs fólks inn í greinarnar.
Margt bendir til að þetta sé að breytast og þau starfskjör sem þar er boðið upp á heilli ekki ungt fólk. Þetta á við fleiri rótgrónar iðngreinar. Ríkisstjórnin boðar átak til að efla verkmenntun og er það ánægjulegt. Vonandi munum við sjá þess merki á næstu misserum, hér má engan tíma missa.
Eitt af því sem þarf að gera til að auka áhuga ungs fólks er að taka á undirboðum og kennitöluflakki sem oft á tíðum kemur grimmilega niður á starfsfólki.
Það er staðreynd að verktakar sem virða hvorki lög né kjarasamninga komast upp með að vera með starfsemi árum saman. Þeir reka fyrirtæki í skamman tíma á sömu kennitölunni, greiða ekki fyrir vörur, standa ekki skil á lögboðum gjöldum en skipta um kennitölu þegar allt er komið í þrot. Þeir endurtaka síðan leikinn með nýrri kennitölu. Þetta verður að stöðva en það verður ekki gert nema stjórnvöld spili með og grípi inn í.

Í stuttu máli: Við þurfum að tryggja að kaupmáttur fari vaxandi, hér ríki efnahagslegur stöðugleiki, starfsumhverfi iðnaðarmannsins sé áhugavert m.a. með því að hækka grunnlaunin. Gera iðnaðarmannastarfið áhugavert fyrir ungt fólk og koma í veg fyrir undirboð og undanskot með kennitöluflakki.
Árið 2018 verður ár tækifæranna en spurningin er – tekst okkur að fleyta árangri síðustu ára inn í framtíðina eða missum við þetta úr höndunum og við tekur gamla sagan?