Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sl. föstudag var farið yfir markmið komandi kjarasamningsviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfugerðin kynnt.
Megin markmið Samiðnar við endurnýjun kjarasamninga verður að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Kauptaxtakerfið verði endurskipulagt og tryggt að það endurspegli markaðslaun á hverjum tíma. Vinnuvikan verði stytt án launaskerðingar og félagslegum undirboðum verði útrýmt sem og að erlendum starfsmönnum verði tryggð þau réttindi sem þeim ber. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar á velferðarkerfinu til að tryggja að allir njóti öryggis og þjónustu óháð efnahag, búsetu eða aldri. Verulega verði dregið úr tekjutengingum almannatrygginga og tryggt að allir búi við húsnæðisöryggi.
Iðnaðarmannafélögin innan ASÍ hafa gert með sér samstarfssamning vegna komandi samningaviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Félögin mun vinna saman að samningsgerðinni og hefur Kristján Þórður Snæbjörnsson formaður Rafiðnaðarsambandsins verið valinn sem talsmaður hópsins.