Fjölmargir fundir samninganefndar iðnaðarmanna og undirhópa hafa verið haldnir með fulltrúum SA í vikunni og munu halda áfram um helgina. Mestur tími hefur farið í að ræða möguleika á styttingu vinnuvikunnar en alkunna er að vinnuvikan á Íslandi er með því lengsta sem þekkist.
Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein megin krafa iðnaðarmannasamfélagsins. Engin niðurstaða er komin en aðilar eru sammála um að halda vinnunni áfram og freista þess að ná samkomulagi. Samhliða því er leitað eftir niðurstöðu í upptöku nýs kaupataxtakerfis sem endurspegli greidd laun.
Einnig hafa verið rædd ýmis minni mál og má því segja að öll kröfugerðin sé komin í vinnslu. Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að nýr samningur gildi frá áramótum og hafa fengið jákvæð viðbrögð af hálfu SA en með ákveðnum skilyrðum þó.
Iðnaðarmenn hafa opnað á samning til styttri tíma til þess að skapa rými til að vinna betur að framkvæmd verkefna sem snúa að stjórnvöldum og t.d. styttingu vinnuvikunnar sem langtíma verkefni.
Hvert vinnan leiðir er erfitt að segja til um á þessu stigi en það er sameignlegur vilji að gera tilraun til að ljúka samningum í þessum mánuði. Á endanum verður það þó alltaf innihald samningsins sem ræður úrslitum.
Nýr kjarasamningur verður að tryggja árangur síðustu ára og varða veginn áfram með þeim hætti að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa.
Markmið iðnaðarmannasamfélagsins eru skýr og samstaðan góð og það er það sem skiptir mestu máli þegar við viljum ná árangri.
Næstu dagar munu ráða úrslitum um hvernig kjaradeilan mun þróast, getum við lokið samningum eða erum við að fara inn í langdregna kjaradeilu.
Að þessu sögðu vonum við að næstu dagar verði árangurríkir og í næstu viku verði hægt að segja betur til um hvert stefnir.