Vinnan við gerð nýs kjarasamnings hefur haldið áfram í þessari viku og athyglin beinst að styttingu vinnuvikunnar og gerð nýs launakerfis.
Það sem borið hefur hæst eru húsnæðismálin og framlagning tillagna húsnæðishópsins sem forsætisráherra skipaði fyrir tveimur mánuðum. Margar þeirra tillagna sem starfshópurinn leggur til eru góðar og munu leiða til framfara ef þeim verður hrint í framkvæmd. Margar nefndir hafa á undangengnum árum skilað skýrslum um úrbætur í húsnæðismálum sem síðan hafa dagað uppi í hillum ráðuneytanna. Við vonum öll að það verði ekki raunin að þessu sinni, það væru svik við almenning.
Tillögurnar eru í 7 flokkum:
1 Almennar íbúðir – stækkun kerfisins með stofnframlögum og hærri tekjumörkum
2 Húsnæðisfélög – stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög
3 Leiguvernd – skýrari reglur á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði
4 Skipulags og byggingamál – endurskoðun regluverks til einföldunar og rafvæðing stjórnsýslu
5 Samgönguinnviðir – hraðari uppbygging samgönguinnviða og almenningssamgangna
6 Ríkislóðir – ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir, þar á meðal fyrir leigumarkaðinn
7 Upplýsingamiðlun – samræmd söfnun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál.
Megin veikleiki tillagna starfshópsins er að þær eru ekki tillögur sem hægt er að ganga að og hrinda beint í framkvæmd. Margar gætu þurft nokkuð langan aðdraganda til að komast í framkvæmd t.d. framkvæmdir á ríkislóðum á Keldum eða uppbygging samgangna. Eitt er það sem hefur orðið banabiti margra góðra tillagna um úrbætur í húsnæðismálum er að þeim hefur ekki fylgt fjármagn. Framhjá þessu er skautað býsna létt í tillögugerðinni og er t.d. fjármögnuninni vísað til ASÍ og SA og er þar væntanlega verið visa til að fjármagnið eigi að koma úr lífeyrissjóðunum.
Það er alkunna að skortur er á húsnæði sérstaklega fyrir tekjulágar fjölskyldur og brýnt að tekið verði á þeim vanda hratt og vel. Á þeim vanda verður ekki tekið nema til komi aukið fjármagn, en án þess munu tillögurnar eiga erfiða fæðingu. Það eru mikill vonbrigði að ekki skuli fylgja tillögur að fjármögnun svo hægt sé að hrinda þeim strax framkvæmd og leysa vanda þessa fólks.
Aðrar tillögur svo sem um leiguvernd og skipulags og byggingamál snúa að alþingi og sveitafélögum. Þar ættu að vera hæg heimatökin ef vilji er fyrir hendi. Þar þarf ekki að koma til samningagerð aðila vinnumarkaðarins. Reyndar er búið að benda á þessa vankanta lengi en engar úrbætur hafa átt sér stað. Nú er búið að skjalfesta vandann í skýrslu svo þessum aðilum er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.
Rétt er að ítreka að það er margt gott í þessum tillögum og vonandi komast flestar til framkvæmda en margt bendir til þess að það kunni að reynast snúið að koma þeim í framkvæmd m.a. vegna þess að þær eru ekki fjármagnaðar.
Nú eru þessar tillögur komnar til ríksstjórnarinnar og við hljótum að kalla eftir svörum hvernig hún ætlar að tryggja framgang þessara tillagna ekki síst hvernig á að fjármagna þær.
Fólkið sem er búið er að bíða lengi eftir að fá lausn á sínum húsnæðisvanda getur ekki beðið lengur, það á rétt á að fá skýr svör. Við þurfum að taka til hendinni og fara að framkvæma, hætta að tala og skrifa skýrslur því þær búa ekki til húsnæði.
Hugmyndir ASÍ félaganna í skattamálum litu einnig dagsins ljós í vikunni. Megin stefið í þeim er fjögurra þrepa skattkerfi þar sem lægstu laun beri minnstan skatt, millitekjur lækki einnig eða standi í stað en tekjur ríkissjóðs verði sóttar frekar til hálaunafólks; til fjármagnstekna og þeirra sem nýta auðlindir landsins eða í svarta hagkerfið. Markmið þessara tillagna er að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það verður hlutverk ASÍ í þessum kjaraviðræðum að fylgja þessum tillögum eftir við stjórnvöld.