Nokkur hægagangur hefur verið í samningamálum þessa vikuna og er ýmislegt sem veldur því, m.a. að samningsgerðin er mjög flókin og þung. Þetta er ekkert nýtt, stundum ganga hlutirnir hratt og vel en svo koma stundir þar sem lítið er að gerast.
Það sem hefur vakið mesta athygli þessa vikuna er verðkönnun ASÍ sem gerð var í höfuðborgum Norðurlandanna á tilgreindri vörukörfu. Það sem stendur upp úr er hvað vörukarfan er mikið dýrari í Reykjavík en hinum höfuðborgunum. Vörukarfa sem er samsett af algengum matvörum úr helstu vöruflokkum er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki og 40% dýrari en í Ósló sem er ein dýrasta borg í heimi.
Þannig kostaði vörukarfan 7.878 kr. í Reykjavík en 4.729 kr. í Helsinki. Þessi mikli verðmunur vekur margar áleitnar spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við. Nú er svo komið að verðlag á Íslandi er með því hæsta sem þekkist og erum við á svipuðum stað og Sviss sem er eitt dýrasta land í heimi.
Það er full ástæða til að stoppa við og greina hvers vegna er vöruverð er svona hátt á Íslandi. Eru það innkaupin sem valda þessu háa verði eða er það álagningin eða hvoru tveggja? Er það slæmur rekstur á verslunum í Reykjavík? Neytendur eiga að fylgja þessu eftir og krefja stjórnvöld og þá sem stunda verslunarrekstur svara. Neytendur eiga ekki að láta bjóða sér þau afar kjör sem staðfest eru í könnun ASÍ.
Verklýðshreyfingin á að krefja stjórnvöld um aðgerðir sem tryggja íslenskum neytendum sambærilegt vöruverð og okkar kollegar á hinum Norðurlöndunum búa við. Við eigum ekki að hlusta á skýringar eins og þá „ það er bara svo dýrt að vera Íslendingur“. Það er ljóst að svokölluð samkeppni er ekki að skila íslenskum neytendum sanngjarnt vöruverð það þarf eitthvað fleira að koma til.
Nú er nóg komið, þetta er farið minna á þá tíma þegar hér ríkti einokunarverslun Dana og kaupmaðurinn ákvað verðið sjálfur.
Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um að verið sé að semja um niðurfellingu kaffitíma og verið sé að selja þá á útsölu. Við sem erum við samningaborðið könnumst ekki við slíkt. Ef samkomulag næst um styttingu vinnuvikunnar þá ákveður meirihluti starfsmanna á viðkomandi vinnustað hvort þeir taka kaffitíma eða ekki. Í gildandi kjarasamningi stendur eftirfarandi grein 3.1.2. “Starfsmenn og atvinnurekandi á hverjum vinnustað skulu gera með sér samkomulag um nánari tímasetningu á kaffihléum. Heimilt er með samkomulagi á vinnustað að fella annan eða báða kaffitímana niður og styttist þá dagvinnutímabilið.“
Það er ekki verið að ræða um að breyta þessu fyrirkomulagi heldur snýst málið um ef kaffitímar eru felldir niður þá sé samkomulag um að ávinningnum af því verði skipt milli starfsmanna og atvinnurekenda. Ekki hafa þetta eins og er í dag að ávinningurinn renni óskiptur í vasa atvinnurekandans. Að öðru leyti er ekki hægt að tjá sig um málið því það hefur ekki tekist samkomulag um endanlega útfærslu.
Einnig hefur verið umræðunni um að það sé verið að lengja dagvinnutímabilið frá 07.00-19.00 alla virka daga.
Í gildandi kjarasamningi Samiðnar grein 2.1. er kveðið á um dagvinnutímabilið.
„Dagvinna skal vera 40 klst. á viku á tímabilinu frá 07.00 til 18.00 mánudaga til föstudaga.“ Í grein 5.7. Heimil frávik a) Sveigjanlegt dagvinnutímabil „Dagvinnutímabil verði á tímabilinu 07.00 til 19.00.“
Einnig hefur verið rætt um að það sé verið að lækka yfirvinnuálagið og gefið til kynna að verið sé að semja um að lækka það úr 80% í 66%. Það eru þrír áratugir síðan kjarasamningum var breytt og hætt að miða við 80% yfirvinnuálag en í staðin samið um hlutfall af mánaðarlaunum. Engin umræða hefur farið fram um að breyta þessu hlutfalli.
Kristján Þórður talsmaður iðnaðarmanna skrifaði góða grein í Kjarnann í vikunni um það óréttlæti sem birtist í tekjutengingum almannatrygginga gagnvart lífeyri frá lífeyrisjóðum. Ein af megin kröfum iðnaðarmanna er að það verði tekin áþreifanlegur áfangi í að afnema tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og allir sem greiði í lífeyrisjóð njóti þess í betri afkomu þegar eftirlauna árin taka við. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkar eldri félaga og þá sem fara á eftirlaun á næstu árum.
Umræða í fjölmiðlum er mikilvæg því hún miðlar upplýsingum til félagsmanna og gerir þeim kleift að mót sér afstöðu til þess serm unnið er með á hverjum tíma.
Það er gott að það fari fram umræða um hvert við viljum stefna með nýjum kjarasamningum en þá er mikilvægt að sú umræða byggi á staðreyndum.
Krafa okkar iðnaðarmanna er að það verði raunstytting á vinnuvikunni, samið verði um góð laun fyrir dagvinnu. Það er sú krafa sem við erum að vinna með.