Ekki er hægt að halda því fram að okkur hafi miðað mikið áfram í samningaviðræðunum þessa vikuna en höfum þó reynt að þoka málum í rétta átt. Tíminn hefur verið notaður í samtöl við atvinnurekendur í einstökum starfsgreinum s.s í málm- og byggingageiranum.
SA hefur lagt fram tilboð til þeirra félaga sem hafa vísað deilunni til sáttasemjara og kynnt það efnislega fyrir iðnfélögunum án þess að það hafi verið lagt fram formlega. Nú er verið að skoða innihald tilboðsins og hvernig eigi að bregðast við því og að hvaða leyti það uppfyllir okkar kröfur.
Með tilboðinu til félaganna sem hafa vísað til sáttasemjara er ljóst að það eru að verða vatnaskil í þessari deilu. Spurning er hvort tilboðið sé grunnur til að byggja á eða hvort það leiðir til þess að félögin fari í auknum mæli að skapa sér stöðu til að geta þrýst á. Tíminn tikkar og öllum ætti að vera ljóst að nú þarf eitthvað að fara að gerast.
Það sem hefur verið að trufla samtölin um endurnýjun kjarasamninga eru fréttir af gríðarlegum hækkunum hjá bankastjórum og æðstu embættismönnum ríkisins. Það gap sem stjórnvöld bjuggu til með því að fella niður kjaradóm, og vera ekki tilbúin með fyrirkomulag sem á að taka við, hafa þeir sem eru i efstu lögunum samfélagsins nýtt til hins ítrasta.
Stjórnvöld bera þarna mikla ábyrgð og það er þeirra að taka á þessum ósóma og gefa fólki kost á að skila til baka þessum óhóflegu hækkunum eða hverfa af vettvangi.
Næsta vika getur orðið viðburðarrík og ekki ósennilegt að það skýrist hvert kjaraviðræðurnar þróast.
Við erum enn þá að vinna að styttingu vinnuvikunnar og gerum okkur vonir um að okkur takist að ná góðri lendingu í því máli.