Á fundi samninganefndar Samiðnar í dag var formanni Samiðnar Hilmari Harðarsyni veitt heimild til að vísa yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Þrátt fyrir þá heimild breytir það í engu ásetningi samninganefndar að láta á það reyna á næstu dögum hvort ljúka megi deilunni með kjarasamningi. Mikilvægt er að leggja áherslu á að verkefnið er ekki bara að gera kjarasamning, heldur að gera samning sem varðveitir góðan árangur síðustu ára og tryggir vaxandi kaupmátt á nýju samningstímabili.
Nú styttist í að tveir mánuðir séu liðnir frá því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði runnu út. Við finnum fyrir óþolinmæði félagsmanna sem eðlilegt er og því mikilvægt að nýta vel næstu daga og láta á það reyna hvort til staðar sé raunverulegur vilji að landa nýjum kjarasamningi.
Stéttarfélögin sem hafa haldið til í „Karphúsinu“ síðustu vikurnar hafa slitið viðræðum við SA og hafið undirbúning að aðgerðum sem gætu hafist á næstu vikum. Þessi niðurstaða hefur legið í loftinu um nokkurt skeið og kemur ekki á óvart. Þessi niðurstaða hefur óhjákvæmilega áhrif á þróun mála hjá öðrum og þrengir samningsstöðuna.
Vissulega hafa viðbrögð stjórnvalda í skattamálunum valdið miklum vonbrigðum og ljóst að vonir stóðu til að þaðan kæmi meira en raunin varð. Okkar verkefni er að vinna með þessa niðurstöðu hvort sem okkar líkar betur eða verr.
En það eru fleiri mál en skattamálin sem ríkisstjórnin þarf að ljúka áður en hægt er að skrifa undir nýjan kjarasamning:
> Við viljum fá jákvæð viðbrögð við okkar kröfum um að dregið verði úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.
> Við viljum sjá aðgerðir til að jafna stöðu lífeyrisþega gagnvart almannatryggingum án tillits til þess hvort lífeyririnn kemur úr samtryggingu eða séreign sé hann tilkominn vegna skylduiðgjalds.
> Við viljum fá skýr svör við hvernig verður með fjármögnun átaks í húsnæðismálum.
> Við viljum sjá raunhæft aðgerðarplan um hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma í framkvæmd aðgerðum gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.
Búið er að vinna undirbúningsvinnu í flestum þessum málaflokkum sem hér eru nefndir. Það er ekki nóg að skrifa skýrslur, við þurfum að hafa í hendi raunhæfar áætlanir um hvernig og hvenær kemur að framkvæmdum og efndum. Það er ekki nóg að gefa loðin svör, nú þarf allt að vera fast í hendi.