Við þurfum örlítið svigrúm

Tíminn líður og sumarið nálgast sem fyllir okkur bjartsýni og vissu um að okkur muni takast að ljúka kjarasamningi innan ekki langs tíma. Þessa dagana er verið að greiða atkvæði um nýgerða kjarasamninga SGS, VR, Eflingar o.fl. og vonandi fá þeir góða undirtektir hjá þeim sem þeir taka til. Eins og öllum er kunnugt var iðnaðarmannasamfélagið ekki aðili að þessum samningi og eru því ekki þátttakendur í atkvæðagreiðslunni.
Það liggur fyrir að gera þarf tilraun til að ljúka kjarsamningum og ekkert sem bendir til annars en svo geti orðið á næstu vikum. Öllum má vera ljóst að þeir samningar sem nú er verið að greiða atkvæði um setja ramma utan um aðra kjarasamninga sem koma í kjölfarið. Hins vegar er mikilvægt að hafa það hugafast að áherslur eru ekki þær sömu hjá öllum og kallar það á aðrar útfærslur. Slíkt á ekki að þurfa að raska megin forsendum um efnalegslegan stöðugleika, vaxandi kaupmátt og lækkandi vexti. Sátt um rými til útfærslu er forsenda þess að hægt sé að ljúka þeim samningum sem eftir er að gera og nauðsynlegt að hafa í huga að eftir er að semja fyrir meira en helming af vinnumarkaðinum og hóparnir ólíkir.
Það er ríkur vilji hjá iðnaðarmannasamfélaginu að semja sem fyrst en nýr samningur verður að ná utan um okkar markmið sem eru aukinn kaupmáttur og raunstytting vinnutímans. Í sjálfu sér er ekki ágreiningur milli samningsaðila um þessi markmið en mismunandi skoðanir um leiðir.
Vinnan sem nú er komin í gang leiðir vonandi til þess að ekki líði langur tími þar til við getum kynnt nýjan samning sem sæmileg sátt getur orðið um.
Á mánudaginn kl. 17.00 verður haldinn sameignlegur fundur allra samninganefnda iðnaðarmannnafélaganna til að fara yfir stöðuna og meta framhaldið