Síðastliðinn mánudag var haldinn sameiginlegur fundur samninganefnda iðnaðarmannafélaganna í nýju sameiginlegu húsnæði félaganna að Stórhöfða 31.
Á fundinn mættu tæplega 100 manns, bæði hér frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í gegnum fjarfund. Á fundinum gerði Kristján Þórður talsmaður iðnaðarmannafélaganna grein fyrir stöðunni í viðræðum við SA.
Í hans máli kom fram að viðræður hefðu þokast áfram en töluvert vanti upp á að hægt sé að segja að það séu komnar forsendur til að ganga frá samningum. Hann lagði áherslu á að tíminn sem við hefðum til að ganga frá nýjum kjarasamningum styttist hratt. Tíminn sem við hefðum til að ljúka samningum væri fram að næstu mánaðarmótum. Hann sagðist skynja stöðuna þannig að baklandið gæfi samninganefndinni tækifæri á að koma með nýjan samning fyrir næstu mánaðarmót ella yrði knúið á um samning með auknum þrýstingi.
Samninganefndin hitti fulltrúa SA í morgun þar sem rætt var um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar sem er ein af aðalkröfum iðnaðarmanna.
Einnig var farið yfir vinnulagið eftir páska en samkomulag er um að tekin verði vinnulota frá þriðjudegi til sunnudags í vikunni eftir páska.
Samninganefnd iðnaðarmanna lagði áherslu á að þessir dagar yrðu vel nýttir því gengið hafi á þolinmæðina og krafan um sýnilegan árangur væri orðin þung í baklandinu.
Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um nýgerða kjarasamninga og vonandi fá þeir góðar undirtektir hjá þeim sem þeir taka til.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir samningar sem gerðir hafa verið eru til að mæta þörfum þeirra hópa sem þeir taka til og geta því ekki verið óumbreytanlegir gagnvart öðrum. Verði það krafan er hætt við að viðvera þeirra sem eftir eru að semja geti orðið löng hjá sáttasemjara.
Hinsvegar má öllum vera ljóst að nýgerðir kjarasamningar eru ákveðinn rammi sem aðrir munu horfa til. Jafnframt er nauðsynlegt að skapa svigrúm til að útfæra aðra kjarasamninga innan þess ramma þannig að þeir taki til þarfa þeirra sem eiga eftir að vinna eftir þeim.
Við sendum öllum okkar félagsmönnum óskir um góða páskahelgi um leið hvetjum við alla til að fara að íhuga með hvað hætti hægt er að knýja á um nýja kjarasamninga ef okkur tekst ekki að ljúka samningagerðinni í vikunni efir páska.