Mikilvægi þess að velja rétt

Að undanförnu hefur mikil umræða verið um rakavandamál í byggingariðnaði, sér í lagi um myglu og áhrif hennar á líf okkar. Er það mjög þörf umræða enda eru þess mörg dæmi að upp hafi komið alvarleg heilsufarsleg vandamál í tengslum við myglu. Þá hefur komið til mikið fjárhagslegt tjón vegna myglu og annarra atriða sem tengjast henni.

Auðvitað getur margt komið til þegar leitað er ástæðna fyrir myglu en ljóst er að eitt það mikilvægasta er þó að vanda til verka og leita til þeirra sem hafa þekkingu og færni á viðkomandi sviði.

Löggiltir iðnaðarmenn eru frumforsenda fyrir fagmennsku í vinnubrögðum. Þá hefur átt sér stað mikil vitundarvakning á meðal faglærðra iðnaðarmanna um myglu og mikið framboð er af endurmenntun á þessu sviði fyrir iðnaðarmenn, m.a. hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Tökum höndum saman og veljum rétt. Veljum fagmennsku og gefum ekki afslátt af heilsu okkar.