Keyrum þetta í gang

Við áramót er oft á tíðum horft um öxl yfir árið sem er að líða en ekki síður fram á veginn. Ljóst er að árið 2020 verður okkur öllum minnistætt og nú þegar byrjað er að bólusetja heimsbyggðina eru bjartari tímar framundan. Ríkisstjórnin fékk stórt verkefni í fangið þegar Covid-19 veiran byrjaði að herja á landsmenn og var gripið til margvíslegra aðgerða. Margar hverjar voru vel heppnaðar, svo sem hlutabótaleiðin og lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Ennfremur ber að fagna því að ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða.

Það er þó ljóst að fjárfestingarátak sem ríkisstjórnin boðaði hefur ekki komið að fullu fram og er mikilvægt að meiri slagkraftur verði settur í þær framkvæmdir á komandi ári. Að sama skapi skiptir miklu máli að sveitarfélögin nýti sér þau tækifæri sem umrædd endurgreiðsla á virðisaukaskatti hefur í för með sér. Til lengri tíma litið felast tækifæri að horfa til nýsköpunar og hvernig nýta megi hana til frekari virðisauka fyrir íslenskt samfélag. Næstu misserin skiptir þó öllu máli að gefa í, hvað varðar framkvæmdir hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríkissvaldið eða sveitarfélög. Það er til hagsbóta fyrir okkur öll að fá aukna innspýtingu í íslenskt atvinnulíf sem fyrst á nýju ári. Stöndum saman að því að gera árið 2021 að ári framkvæmda og uppbyggingar.