Ekkert lát er á endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna vinnu iðnaðarmanna við endurbætur og viðhald. Alls hafa borist tæpar 9.000 endurgreiðslubeiðnir til Skattsins samanborið við allt árið 2020 þegar að 45.000 endurgreiðslubeiðnir bárust og árið 2019 þar sem tæplega 12.000 endurgreiðslubeiðnir bárust. Alls nema endurgreiðslur á fyrstu tveimur
mánuðum ársins 2021 þegar 130 milljónum. Alls hafa þegar verið afgreiddar 1.500 endurgreiðslubeiðnir vegna 2021.
,,Það stefnir í metár í framkvæmdum hér á landi ef heldur fram sem horfir.
Iðnaðarmenn hafa haft nóg að gera enda sjá margir tækifæri að láta gera við húsnæði og bifreiðar og fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Endurgreiðslan var tímabundið hækkuð úr 60 prósent í 100 prósent til að bregðast við niðursveiflu í efnahagslífinu af völdum COVID-19,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, Sambands iðnfélaga.
,,Ákveðið var að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu við íbúðarhúsnæði fram til ársloka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki m.a. einnig til húsnæðis í eigu sveitarfélaga og bílaviðgerða. Við hjá Samiðn lögðum mikla áherslu á þetta átak enda er það atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra. hefur skilað okkar félagsmönnum aukinni vinnu og verkefnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar átakið kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum,” segir Hilmar.
Búið er að endurgreiða samtals rúmlega 12,2 milljarða vegna vinnu sem framkvæmd var frá mars til áramóta 2020 samkvæmt upplýsingum frá Skattinum en alls nemur fjöldi afgreiddra endurgreiðslubeiðna vegna tímabilsins rúmlega 40.000 á fyrstu 9 mánuðum 2020. Um 4,2 milljarðar voru endurgreiddir vegna endurbóta og viðhalds á íbúðarhúsnæði á tímabilinu, 1,7 milljarða vegna nýbyggingar á íbúðarhúsnæði og endurgreiðsla til byggingaraðila nam 5,6 milljörðum. Endurgreiðslur vegna begna bifreiðaviðgerða námu 264 milljónum. Endurgreiðslur til líknarfélaga námu tæpum 92 milljónum og endurgreiðslur til sveitarfélaga 295 milljónum.