Áhugavert fordæmi hjá Félagsdómi

Fyrir stuttu féll áhugaverður dómur hjá Félagsdómi þar sem tekist var á um uppsagnir Bláfugls ehf., á félagsmönnum Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Þar var m.a. fjallað um hvort að umræddar uppsagnir hafi verið ólögmætar þar sem þær hafi verið liður í því að hafa áhrif á yfirstandandi vinnudeilur málsaðilar eða þar hafi rekstrarlegar ástæður legið að baki.

Samkvæmt meginreglu íslensks vinnuréttar er vinnuveitanda heimilt að segja upp starfsmönnum sínum með tilskildum fyrirvara nema sérstök lagafyrirmæli eða samningsákvæði kveði á um annað. Í a-lið 4. gr. laga nr. 80/1938 er mælt fyrir um að atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn.

Var það mat dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að til grundvallar þeirri ákvörðun Bláfugls ehf. að segja upp félagsmönnum Félags íslenskra atvinnuflugmanna hafi legið rekstrarlegar ástæður. Í dóminum kemur fram að aðilar höfðu þegar hafið kjarasamningaviðræður þegar til uppsagnanna kom og þá liggur fyrir að Bláfugl ehf., hafi ráðið til starfa tíu nýja flugmenn sama ár. Taldi dómurinn að ekki yrði hjá því komist að líta svo á að uppsagnir félagsmanna hafi verið liður í því að hafa áhrif á þá kjaradeilu sem þegar hafi verið til staðar á milli aðila máls og unnið hafi verið að því að leysa úr með formlegum hætti. Dómurinn taldi því að umrædd ákvörðun Bláfugls ehf., hafi verið brot gegn ákvæði a-liðar 4. gr. laga nr. 80/1938 og sé því ólögmæt. 

Hér er því komið fram áhugavert fordæmi sem snýr að því hvenær heimilt er að fara í uppsagnir starfsmanna þegar kjaraviðræður eru hafnar. Túlka má dóminn með þeim hætti að fyrirtæki sem fara í uppsagnir á þessu tímabili, þegar kjaraviðræður standa yfir, með vísan til rekstrarlegra ástæðna þurfa að sýna fram á slíkar ástæður með ríkum hætti.