Frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þann 15. júní samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Alþingi lögfesti að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs fari úr 12% í 15,5% til samræmis við hækkun í samningi ASÍ og SA frá í janúar 2016. Samhliða hækkun lágmarksiðgjalds er hækkun lágmarkstryggingaverndar lögfest að hún verði 72% meðalævitekna miðað við 40 ára inngreiðslutíma fyrir þá sem leggja allan skyldusparnað í samtryggingu. Meðfram hækkun iðgjalds 2016 var samkomulag um að sjóðsfélögum byðist að leggja 3,5% hækkun iðgjalds í séreign kallaða tilgreind séreign. Með samþykkt frumvarpsins eru ákvæði um tilgreinda séreign einnig lögfest.

Samþykkt frumvarpsins skýrir og tekur á misjöfnu samspili lífeyrissparnaðarforma gagnvart almannatryggingum. Skýrt er nú kveðið á um í lögum að litið er til allra tegunda lífeyrissparnaðar við útreikning greiðslna almannatrygginga annarra en 4% viðbótarlífeyrissparnaðar launamanns og 2% mótframlags launagreiðanda.
Þá fylgir lagasetningunni breyting á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð þannig að nýta má tilgreinda séreign til kaupa á fyrstu fasteign að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  

Stóru aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins, lögðu áherslu á að þær breytingar á lögum sem fælust í frumvarpinu yrðu að lögum. Birtist það í því að samtökin skiluðu sameiginlegum umsögnum bæði við drög þess í samráðsgátt stjórnvalda og við frumvarpið til Alþingis. Um drögin sögðu samtökin þau vera tímabæran áfanga í framkvæmd og efndum á yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þá kom fram að efni þeirrar yfirlýsingar, útfærð í frumvarpsdrögunum, væru nauðsynlegur liður í því að ljúka samræmingu lífeyrisréttinda á öllum vinnumarkaðnum. Samningsaðilar, ASÍ og SA, treystu á að stjórnvöld veittu mikilvægustu þáttum kjarasamnings aðila um lífeyrismál frá 2016 lagastoð, einkum ákvæðum um lágmarksiðgjald og aukinn sveigjanleika, en það hefur dregist úr hófi fram.

Í frumvarpinu lagt fyrir Alþingi voru breytingar sem voru viðbrögð stjórnvalda við athugasemdum við fyrri drög að frumvarpi frá aðstandendum lífeyrissjóða utan samningssviðs ASÍ og SA. Í umsögn ASÍ og SA sagði að sú málamiðlun sem í breytingunum fælist gengi mjög langt og vonuðust samtökin til þannig væri tryggður víðtækur stuðning við frumvarpið. Samtökin áréttuðu mikilvægi þess að frumvarpið yrði að lögum með því að standa sameiginlega að baki frumvarpinu og hvöttu Alþingi eindregið til þess að frumvarpið yrði að lögum.

Enn eiga mörg stéttarfélög ósamið og eiga því ekki aðild að samkomulaginu.

Hilmar Harðarson,

Formaður Samiðnar og lífeyrisnefndar ASÍ